Handbolti

Einar vill fara frá Flensburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Hólmgeirsson í leik með Flensburg.
Einar Hólmgeirsson í leik með Flensburg. Mynd/Vilhelm

Einar Hólmgeirsson segir að hann vilji fara frá þýska úrvalsdeildarliðinu Flensburg enda fái hann afar fá tækifæri hjá liðinu.

„Það má segja að draumurinn hafi breyst í martröð hjá mér hér í Flensburg. Því er alls ekki að leyna að ég vil fara frá félaginu þar sem núverandi staðan mín er óskemmtileg," sagði Einar í samtali við Morgunblaðið.

Þjálfari liðsins, Kent-Harry Andersson, hefur notað Einar afar lítið á tímabilinu og má því helst kenna um að stjórn félagsins sá um að fá Einar til liðsins á meðan að hann var í veikindaleyfi. Andersson var því ekki hafður með í ráðum og vill nota Einar til að senda skilaboð til stjórnar félagsins.

„Það er alveg sama á hverju gengur í leikjum, ég fæ engin tækifæri hjá Anderson. Hann lætur frekar hægrihandarmann í mína stöðu en að setja mig inn á leikvöllinn," segir Einar enn fremur.

Einar skrifaði undir þriggja ára samning við Flensburg á síðasta ári en reiknar með að mæta skilningi hjá forráðamönnum liðsins sem muni sleppa honum fyrir ásættanlegt verð.

Hann lék í þrjú ár með Grosswallstadt í þýsku úrvalsdeildinni áður en hann gekk til liðs við Flensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×