Handbolti

Snorri Steinn: Markmiðið var að vinna Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson fagnaði góðum sigri með GOG í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson fagnaði góðum sigri með GOG í dag. Nordic Photos / Bongarts

Snorri Steinn Guðjónsson sagði í samtali við Vísi að sigur sinna manna í GOG á Barcelona hafi verið afar sætur.

„Við þurftum á þessum sigri að halda," sagði hann. „Við töpuðum fyrstu tveimur deildarleikjum okkar eftir EM og vonandi kemur þessi sigur okkur í gang."

GOG vann tveggja marka sigur á Barcelona, 35-33, í Meistaradeild Evrópu í dag eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik.

„Það voru ekki margir sem bjuggust við þessu en við höfðum verið að gera góða hluti í Meistaradeildinni fram að þessu. Við gerðum til að mynda tvö jafntefli við Portland San Antonio."

„Við fórum því í leikinn með það í huga að hafa gaman af leiknum en markmiðið var engu að síður að vinna. Við lentum svo 6-7 mörkum undir en héldum samt ótrauðir áfram og stóðum uppi sem siguvergarar. Þetta small allt saman hjá okkur undir lokin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×