Handbolti

Danir unnu öruggan sigur

Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, gefur sínum mönnum fyrirmæli í kvöld.
Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, gefur sínum mönnum fyrirmæli í kvöld. Nordic Photos / AFP

Danmörk vann í kvöld sinn fyrsta leik á EM er liðið vann átta marka sigur á Svartfjallalandi, 32-24.

Þá vann Pólland sigur á Slóvenum, 33-27, í A-riðli.

Sigur Dana var mjög öruggur en staðan í hálfleik var 18-9. Þeir Joachim Boldsen, Hans Lindberg og Lars Rasmussen skoruðu fimm mörk hver í leiknum.

Markahæstur hjá Svartfellingum var Alen Muratovic með níu mörk en Drasko Mrvaljevic kom næstur með átta mörk.

Sigur Pólverja var ekki eins öruggur þó svo að þeir leiddu með níu marka mun í hálfleik, 23-14.

Slóvenar náðu góðum leikkafla um miðjan síðari hálfleik er þeir skoruðu sex mörk gegn einu og náðu að minnka muninn í þrjú mörk, 27-24. En þá komu fjögur pólsk mörk í röð sem dugði til að tryggja sigurinn.

Karol Bielecki skoraði flest mörk Pólverja, níu talsins, en Grzegorz Tkaczyk kom næstur með sex.

Hjá Slóvenum var Ales Pasjovic markahæstur með sjö mörk.

Pólland og Slóvenía eru bæði með tvö stig í riðlinum en Króatar eru með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar í A-riðli. Tékkar eru enn án stiga.

Í B-riðli eru Norðmenn með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar en Danir koma næstir með tvö stig, þá Rússland og Svartfjallaland með eitt stig hvert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×