Handbolti

Stórsigur Norðmanna á Rússum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjetil Strand skorar úr víti í leiknum í dag.
Kjetil Strand skorar úr víti í leiknum í dag. Nordic Photos / AFP

Heimamenn eru svo sannarlega að standa undir væntingum á EM í Noregi en í dag vann liðið ellefu marka sigur á Rússum, 32-21.

Rússar byrjuðu betur og komust í 8-6 forystu eftir fimmtán mínútna leik. En þá kom glimrandi góður kafli frá heimamönnum og Rússar skoruðu bara tvö mörk það sem eftir lifði af hálfleiknum á meðan að Norðmenn skoruðu níu mörk.

Staðan var því 15-10 fyrir Norðmenn í hálfleik.

Yfirburðirnir héldu svo áfram í síðari hálfleik og þegar átta mínútur voru til leiksloka voru Norðmenn þegar búnir að ná tólf marka forskoti í leiknum, 28-16. Lokatölur voru svo 32-21 sem fyrr segir.

Steinar Ege fór á kostum í marki Dana, rétt eins og í gær, og varði 29 skot í leiknum eða helming allra skota sem á markið kom. Hann varði einnig eitt víti.

Frode Hagen fór einnig mikinn og skoraði níu mörk í leiknum. Håvard Tvedten skoraði sex mörk, þar af fjögur úr vítum og Thomas Skoglund fimm.

Hjá Rússum var Andrey Starikh markahæstur með fimm mörk en Alexey Kostygov varði 16 skot í markinu.

Norðmenn eru því komnir í gríðarlega sterka stöðu fyrir milliriðlakeppnina en þeir mæta Svartfellingum í lokaumferð A-riðils á sunnudaginn. Noregur vann Danmörk í gær og er því með fjögur stig.

Núna klukkan 19.15 mætast Danmörk og Svartfjallaland. Í gær gerðu Rússar og Svartfellingar jafntefli, 25-25.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×