Viðskipti erlent

Hagnaður Sampo dregst töluvert saman

Hagnaður Sampo á fyrsta ársfjórðungi nam 106 milljón evrum eða rúmlega 12 milljörðum kr. Sampo er stærsta tryggingafélag Norðurlandanna og á Exista um 20% hlut í því og einn stjórnarmann, Lýð Guðmundsson.

Hagnaðurinn dróst saman um 48% frá sama tímabili í fyrra einkum vegna lækkunar á verðmæti fjárfestinga félagsins. Munar þar mestu um lækkun hlutabréfaverðs í Nordea.

Eins og Vísir hefur áður greint frá hefur Sampo tekið stöðu í Nordea með rúmlega 10% eignarhlut.

Björn Wahlroos forstjóri Sampo hefur ítrekað lýst yfir áhuga sínum á því að kaupa hlut sænska ríkisins í Nordea sem er rétt tæp 20%. Talið er að hann vilji búta bankann upp, selja hluta hans og setjast sem stjórnarformaður yfir því sem eftir verður.

Wahlroos er ekki sá eini sem rennir hýru auga til hlutar sænska ríkisins í Nordea því Wallenberg-fjölskyldan mun einnig hafa áhuga á að kaupa hlutinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×