Viðskipti erlent

Skuldatryggingaálag bankana heldur áfram að lækka

Skuldatryggingaálag á íslensku bankana og ríkissjóð hefur lækkað talsvert í kjölfar þeirra fregna að Seðlabankinn hefur með gjaldeyrisskiptasamningum við seðlabanka Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur tryggt sér aðgengi að 1,5 milljörðum evra.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að skuldatryggingaálag Kaupþings stendur nú í 430 púnktum og hefur lækkað um 30 púnkta síðan tíðindin bárust.

Álag á skuldatryggingar Glitnis hefur lækkað úr 410 og í 365 púnkta og álag Landsbankans hefur farið niður um 75 púnkta og stendur nú í 185 púnktum. Þá hefur skuldatryggingaálag ríkissjóðs lækkað um 30 púnkta en lækkandi skuldatryggingaálag ætti einnig að auðvelda ríkissjóði beina erlenda lántöku til að styrkja gjaldeyrisforðann á viðunandi kjörum.

Eins og kunnugt er tilkynnti forsætisráðherra að fleiri aðgerða að hálfu stjórnvalda og Seðlabankans sé að vænta en bein erlend lántaka þykir líklegust í því sambandi. Auk þess sem verulegar líkur eru á frekari gjaldmiðlaskiptasamningum, t.d. við Evrópska seðlabankann og Englandsbanka að því er segir í Morgunkorninu.

Auk þess sem álagið fer nú lækkandi er ekki síður athyglisvert að bilið á milli kaup- og sölutilboða á eftirmarkaði með skuldatryggingaálag íslensku bankanna hefur farið minnkandi undanfarið. Þetta er til vitnis um aukna dýpt á þessum markaði sem eru jákvæðar fréttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×