Viðskipti innlent

Örlög Baugs ráðast um helgina

Philip Green.
Philip Green.

Framtíð Baugs Group ræðst um helgina. Sir Philip Green hefur boðist til að kaupa skuldir félagsins við íslenska banka á ríflegum afslætti af íslenska ríkinu. Ef því boði verður ekki tekið er talið líklegt að breska ríkisstjórnin muni þjóðnýta öll fyrirtæki í eigu Baugs í Bretlandi til að vernda þau rúmlega 50 þúsund störf sem þar eru.

Segja má að Green, sem er einn ríkasti maður Bretlands, hafi stillt íslenska ríkinu upp við vegg. Green hefur samkvæmt heimildum fréttastofu boðist til að kaupa skuldir Baugs við Landsbankann og Kaupþing gegn því að fá ríflegan afslátt.

Ekki er vitað hversu hátt hlutfall Green er tilbúinn til að borga af skuldunum. Ef samkomulag næst ekki gæti íslenska ríkið þurft að afskrifa hverja krónu af þeim rúmlega 300 milljörðum sem bankarnir tveir hafa lánað Baugi á undanförnum árum.

Staða Baugs í Bretlandi er afleit vegna milliríkjadeilu Breta og Íslendinga og hafa fyrirtæki í eigu þess fengið að finna fyrir andúðinni í garð íslensku eigendanna.

Fyrirtæki á borð við House of Fraser, Iceland, Karen Millen og Hamleys, hafa misst lánstraust hjá birgjum sínum og ef ekkert verður að gert geta fyrirtækin hvert af öðru farið í þrot og orðið verðlaus. Það myndi síðan þýða að dagar Baugs væru taldir.

Heimildir fréttastofu herma að Green sé í afar góðu sambandi við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sem vill fyrir alla muni að framtíð fyrirtækja Baugs verði tryggð enda yfir 50 þúsund störf í húfi.

Ef Green tekur yfir skuldir félagsins nær hann meirihlutaeign í Baugi og líklegt að ró komist á hjá fyrirtækjum í eigu þess. Ef ekkert samkomulag næst er mögulegt að Brown þjóðnýti fyrirtækin til að vernda þau störf sem í húfi eru.

Málið er nú í höndum skilanefnda Landsbankans og Kaupþings. Lokaákvörðunin liggur þó alltaf hjá Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra sem fundaði einmitt með Green í gær.

Baugur Group er fjárfestingafélag sem er í meirihlutaeigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Félagið á eingöngu eignir í Bretlandi og Danmörku. Allar eignir félagsins á Íslandi voru seldar í sumar til Gaums, sem er í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu, og tengdra félaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×