Fastir pennar

Nýr dagur

Þorsteinn Pálsson skrifar

Með vissum hætti má segja að nýr dagur sé runninn í íslensku fjármálalífi. Þær ráðstafanir sem ákveðnar hafa verið veita tækifæri til nýrrar viðspyrnu. Á miklu veltur að tæknileg stjórnun fjármálakerfisins á næstu vikum tryggi eðlilegan gang atvinnulífsins. Um leið er nauðsynlegt að skýr hugmyndafræðileg markmið liggi til grundvallar þeirri nýju framtíð sem þjóðin gengur nú til móts við.

Þegar skriftin blasti við á veggnum tók ríkisstjórnin á tröllauknu viðfangsefni af mikilli ábyrgð. Örugg framganga forsætisráðherra hinn örlagaríka dag 6. október 2008 og agað samstarf ríkisstjórnarflokkanna réði miklu um markvissa framvindu hlutanna. Ábyrg afstaða stjórnarandstöðuflokkanna, og alveg sérstaklega Framsóknarflokksins, var nauðsynleg forsenda þess að mál réðust með þeim hætti sem nauðsyn krafði.

Framhaldið er óráðið um flesta hluti. Mikilvægast er að það breiða pólitíska stjórnarsamstarf sem til var stofnað fyrir rúmu ári haldist. Reyndar bendir ekkert til annars en sú stjórnfesta ríki áfram. Pólitísk óvissa við þessar aðstæður gæti orðið að efnahagslegu eitri.

Við tæknilega skipulagsbreytingu á fjármálakerfinu skiptir öllu að verja rekstur atvinnufyrirtækjanna og venjulega fjármálasýslu heimilanna. Þó að einhverjar skráðar eignir fari óhjákvæmilega forgörðum er brýnt að varðveita sem allra mest af eignum landsmanna, skapandi framleiðslu og þjónustu. Það er lykilatriði. Víða mun þurfa að kalla til nýja menn með reynslu og þekkingu, eins úr nýja alþjóðaumhverfinu sem úr gamla hagkerfinu sem svo hefur verið nefnt. Það þarf bæði kraft og traust við það starf.

Vitaskuld mun taka tíma að endurvinna traust fjármálakerfisins bæði heima og erlendis. Það hjálpar til að stærri þjóðir glíma við sams konar vanda.

En frá degi eitt þarf með skipulögðum hætti að láta markmiðið um endurnýjað traust ráða för hvar sem augum er litið og án undantekninga.

Með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að festa gengi krónunnar er með formlegum hætti horfið frá peningamálastefnunni sem fylgt hefur verið í rúm sjö ár. Þegar ró færist yfir á ný stendur ríkisstjórnin frammi fyrir því stóra og vandasama viðfangsefni að ákveða það framtíðarumhverfi peningastefnunnar sem líklegast er til að viðhalda stöðugleika á Íslandi og auka traust á landinu í samfélagi þjóðanna.

Því fyrr sem sú stefnumótun liggur fyrir þeim mun skjótari og öflugri getur viðspyrna atvinnulífsins orðið. Á miklu veltur að hraða öllum ákvörðunum um nýjar fjárfestingar og verðmætasköpun. Nýtt umhverfi peningamála verður að njóta þess trausts að erlendir fjárfestar sjái sér hag í að koma hingað á víðari forsendum en auðlindanýtingu einni saman.

Íslenskt samfélag hefur lengst af þróast í góðu jafnvægi markaðslögmála og velferðar. Við endurreisnina þarf að viðhalda þessu hugmyndafræðilega jafnvægi. Þar af leiðir að endurvekja verður traust manna á að fjárfesta í atvinnulífinu svo að það blómgist á ný.

Það getur verið freistandi að vantreysta markaðnum eftir það sem á hefur gengið. Sú freisting myndi hins vegar draga úr afli viðspyrnunnar og veikja atvinnu- og afkomuöryggi fólksins í landinu. Fyrir þá sök þarf hugmyndafræðilegt jafnvægi endurreisnarinnar að vera skýrt frá upphafi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×