Viðskipti innlent

Gengisáhrifin komu hraðar inn í vísitöluna en reiknað var með

Töluverður munur var á verðbólguspá greiningadeilda bankana og mælingunni sem gefin var út í morgun. Höfuðástæðan er að gengisáhrifin komu mun hraðar inn í vísitöluna nú en menn áttu von á.

Bæði Ásgeir Jónsson forstöðumaður greiningar Kaupþings og Ingólfur Bender forstöðumaður greiningar Glitnis nefna gengisáhrifin sem aðalskekkjuvaldinn í spám sínum. Allar deildirnar þrjár gerðu ráð fyrir verðbólgu um 10% en hún reyndist 11,8% í raun.

Ásgeir Jónsson segir að um grundvallarbreytingu sé að ræða. Yfirleitt taki það nokkrar vikur eða mánuði fyrir gengisbreytingarnar að koma inn í verðlagið. Nú hafi slíkt gerst næstum um leið. "Við höfum ætíð lagt söguna til grundvallar við að meta gengisbreytingarnar en núna breyttist hún," segir Ásgeir sem nefnir einnig miklar hækkarnir á hrávöru á heimsmarkaði samhliða falli krónunnar.

Ingólfur Bender segir einnig að snögg áhrif gengisbreytinganna hafi komið þeim á óvart. Á móti megi svo nefna að þetta þýði að verðbólgan muni lækka hraðar á seinnipart ársins þar sem gengisbreytingin sé nú að baki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×