Viðskipti erlent

Iceland sektað fyrir brot á brunavarnareglugerð

Breska verslunarkeðjan Iceland, sem er að stærstum hluta í eigu Baugs og Fons, var í gær sektuð um þrjátíu þúsund pund, eða rúmar fjórar milljónir króna, fyrir slælegar brunavarnir í verslun sinni í Nottingham á Englandi.

Þetta kemur fram á vefsíðunni This is Nottingham. Upp komst um málið árið 2006 þegar eldur kom upp á jarðhæð verslunarhússins. Starfsfólk á fyrstu hæð verslunarinnar fór upp á þak en þegar það ætlaði að forða sér í brunastiganum kom í ljós að hann var læstur.

Fólkinu tóks á endanum að brjóta upp lásinn á stiganum með kúbeini og forða sér fyrir utan einn starfsmann sem komst ekki niður. Honum var bjargað skömmu síðar af slökkviliði.

Rannsóknaraðilar í borginni rannsökuðu ástand brunavarna í kjölfarið og komust að því að víða var pottur brotinn og því var fyrirtækið kært. Í viðtali við miðilinn segir yfirmaður brunavarna í Nottingham að þar á bæ séu slíkir hlutir litnir mjög alvarlegum augum. Hann sagðist ánægður með dómsniðurstöðuna og jafnframt viss um að forsvarsmenn Iceland muni halda áfram á þeirri braut sem þeir hafi verið á undanfarið í sambandi við að koma lagi á þessi mál í verslunum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×