Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Davíð segir ekkert að marka eigin skýrslur

Friðrik Indriðason skrifar

Davíð Oddsson seðlabankastjóri fór mikinn á fundi Viðskiptaráðs í morgun þar sem eitt af meginatriðum í máli hans var að hann hefði margoft varað við útrásinni og afleiðingum hennar. Var Davíð meðal annars tíðrætt um fund í febrúar þar sem seðlabankamönnum hafi verið beinlínis brugðið sökum þess hve staðan var slæm.

Þarna er Davíð Oddsson beinlínis að segja að ekkert sé að marka skýrslur Seðlabankans. Til dæmis er ekkert af þessum áhyggjum bankans að finna í hundrað blaðsíðna ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í maí á þessu ári. Þvert á móti þar er íslenska fjármálakerfið sagt vera „í meginatriðum traust".

Í fyrgreindu riti segir að langtímahorfurnar séu góðar í íslensku efnahagslífi „viðunandi staða bankanna, traust opinber umgjörð og eftirlit sem og örugg greiðslu og uppgjörskerfi og ekki síst sterk staða ríkissjóðs..." Síðan kemur almennt orðuð setning um að staða bankanna hafi veikst frá fyrra ári vegna minna framboðs lánsfjár á alþjóðamarkaði.

Og áfram segir: „Á heildina litið er niðurstaða Seðlabankans enn sú að fjármálakerfið sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hafa gert."

Samkvæmt orðum Davíðs Oddsson á fundinum í morgun er þetta allt saman bull sem stendur í riti banka hans, Fjármálastöðugleiki. Alla vega vekur það spurningar um afhverju Davíð lét ekki eitthvað af niðurstöðum fundarins í febrúar koma fram í þessu riti og raunar fleiri útgáfum á vegum Seðlabankans frá því að seðlabankamönnum var beinlínis brugðið í febrúar.

Davíð Oddsson segir að hann og Seðlabankinn beri enga ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Á móti kemur að menntaðir hagfræðingar og fjármálaspekingar, bæði innanlands og utan, eru sammála um að að hann hafi ekki valdið starfi sínu.










Tengdar fréttir

Krefst erlendrar rannsóknar á störfum Seðlabankans

Davíð Odddsson seðlabankastjóri krefst þess að fram fari ítarleg rannsókn á vegum erlendra aðila á störfum Seðlabankans í aðdraganda bankahrunsins. Komi í ljós að mistök hafi verið gerð þurfi ekki að reka neinn, menn muni segja af sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×