Sport

Verð að vera stór og sterk

Henry Birgir Gunnarsson í Peking skrifar
Ragna Ingólfsdóttir kom fyrst íslensku keppendanna til Peking.
Ragna Ingólfsdóttir kom fyrst íslensku keppendanna til Peking. Mynd/Vilhelm

„Ég er frekar róleg enda búin að undirbúa mig vel bæði líkamlega og andlega fyrir þessa stund," sagði badmintonstúlkan Ragna Ingólfsdóttir við Vísi tæpum sólarhring áður en hún mætir japönsku stúlkunni Eriko Hirose.

Ragna er fyrst íslenski keppandinn sem stígur á stokk á ÓL í Peking en leikur hennar við Hirose hefst klukkan 1.20 í nótt að íslenskum tíma.

Ragna er með slitið krossband og hefur bitið á jaxlinn og spilað þannig í rúmt ár svo hún kæmist til Peking. Hvernig er staðan á hnénu sólarhringi fyrir stóru stundina?

„Ég hef ákveðið að svara því þannig að hnéð sé frábært en það hefur eðlilega verið að "bögga" mig síðustu mánuði," sagði Ragna en blaðamanni fannst hún stinga við er hún labbaði. „Ég er ekki hölt en hnéð er laust í sér. Ég hef getað spilað svona í rúmt ár og þetta er bara enn eitt mótið sem hnéð er í þessu ástandi. Mér finnst hnéð vera fínt og mestu skiptir að hausinn sé í lagi enda er ég vön að keppa í þessu ástandi."

Andstæðingur Rögnu er besti badmintonspilari Japans og er um 20 sætum fyrir ofan Rögnu á styrkleikalistanum. Það er því ljóst að það verður við ramman reip að draga.

„Ég má ekki einblína of mikið á hvernig hún spilar heldur meira hvernig ég ætla að spila. Ég má ekki vera lítil og hrædd heldur verð ég að vera stór og sterk," sagði Ragna sem er reyndar 17 sentimetrum hærri en Hirose. Ragna er 180 sentimetrar en Hirose 163.

„Allar japönsku stelpurnar eru með svipaðan stíl. Ég hef unnið tvær japanskar en þær voru reyndar ekki eins góðar og þessi. Ég veit því hvernig þær spila. Þessi stelpa er að spila á sterkari mótum en ég og kemst þar í átta liða og undanúrslit þannig að hún er rosalega sterk," sagði Ragna sem er því eðlilega ekki sigurstranglegri aðilinn í viðureigninni.

„Ég vona að það sé meiri pressa á henni. Það er eflaust búist við miklu af henni og vonandi get ég nýtt mér að það sé pressa á henni," sagði Ragna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×