Viðskipti innlent

Kaupum á dótturfélögum Landsbankans rift

William Fall forstjóri Straums ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni stjórnarformanni
William Fall forstjóri Straums ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni stjórnarformanni

Straumur hefur rift kaupum félagsins á erlendum eignum Landsbankans. Samkomulag um kaupin voru gerð þann 1. október síðastliðinn.

Um var að ræða 100% hlut í Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki Kepler og 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki.

Eftir að aðgerðir FME og breskra yfirvalda undanfarna daga þykir ljóst að Landsbankinn getur ekki staðið við ákvæði kaupsamningsins. Straumur hefur því ákveðið að rifta samningnum.

Hér fyrir neðan er tilkynnning frá Straumi vegna málsins.

Eins og tilkynnt var 1. október síðastliðinn skrifuðu Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf. (Straumur) og Landsbanki Íslands hf. (Landsbankinn) undir samkomulag um kaup Straums á meirihluta af erlendri starfsemi Landsbankans á sviði fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar fyrir 380 milljónir evra, með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila í viðkomandi löndum. Um var að ræða 100% hlut í Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki Kepler og 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki.

Hinn 7. október síðastliðinn tilkynnti Landsbankinn að Fjármálaeftirlitið (FME) hefði ákveðið að taka yfir vald hluthafafundar Landsbankans og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Ennfremur að FME hefði skipað skilanefnd sem tæki við öllum heimildum stjórnar Landsbankans þegar í stað.

Ennfremur tilkynntu stjórnvöld í Bretlandi hinn 8. október síðastliðinn að þau hefðu gripið til ráðstafana í því skyni að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi.

Ljóst er orðið að Landsbankinn er ekki í aðstöðu til að standa við ákvæði kaupsamningsins sem gerður var.

Af þessum sökum hefur Straumur í dag tilkynnt Landsbankanum um riftun á kaupsamningnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×