Viðskipti erlent

Mafían þrýstir upp matvælaverðinu á Ítalíu og víðar

MYND/Getty

Það eru ekki einungis uppskerubrestur og aukin eftirspurn í Asíu sem leitt hafa til hækkandi matvælaverðs á Ítalíu að sögn viðskiptasíðu Jótlandspóstsins. Mafían á einnig sinn þátt í því.

Eftir því sem segir í frétt Jótlandspóstsins er það vel þekkt að ítalska mafían krefst svokallaðra verndartolla af minni verslunum. Þessum tollum velta verslunareigendurnir svo út í verðlagið þannig að verð á til dæmis ávöxtum og grænmeti hækkar.

Ítölsku landbúnaðarsamtökin hafa nú í fyrsta sinn viðurkennt vandann enda er þetta farið að hafa áhrif út fyrir landssteinana að sögn fulltrúa í danska sendiráðinu í Róm. Verndartollarnir sem mafían innheimti leggist líka á vörur sem Ítalir flytji út, eins og til dæmis appelsínur. Slíkt skekki samkeppnisstöðuna við til að mynda Spán sem einnig flytur út mikið af appelsínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×