Handbolti

Þórir með sex í sigri Lübbecke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir Ólafsson, leikmaður Lübbecke.
Þórir Ólafsson, leikmaður Lübbecke. Mynd/Oliver Krato
Þórir Ólafsson og félagar í Lübbecke eru enn á sigurbraut í norðurriðli B-deildarinnar í þýska handboltanum.

Í gær vann Lübbecke sjö marka sigur á Eintracht Hildesheim á útivelli, 29-22. Þórir Ólafsson skoraði sex mörk fyrir Lübbecke.

Lübbecke hefur unnið alla sex leiki sína til þessa í haust og er á toppi riðilsins með tólf stig, rétt eins og Ahlener. Annað Íslendingalið, Hannover-Burgdorf, er í þriðja sæti með tíu stig.

Þá fór einn leikur fram í þýsku úrvalsdeildinni í gær. Minden steinlá fyrir Wetzlar á útivelli, 31-18 eftir að hafa verið 19-8 undir í hálfleik.

Hvorki Gylfi Gylfason né Ingimundur Ingimundarson komust á blað hjá Minden sem er í tólfta sæti deildarinnar með fjögur stig. Þetta var fyrsti sigur Wetzlar á tímabilinu og er liðið með þrjú stig í fimmtánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×