Handbolti

Dagur: Afar spennandi félag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur í Vínarborg er hann tók við austurríska landsliðinu.
Dagur í Vínarborg er hann tók við austurríska landsliðinu. Mynd/HAGENpress/Leo Hagen
Dagur Sigurðsson mun á næstunni skrifa undir tveggja ára samning við þýska úrvalsdeildarfélagið Füchse Berlin. Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi í dag.

Fyrr í dag sagði Bob Hanning, framkvæmdarstjóri félagsins, við Vísi að þeir hefðu sammælst um þetta og handsalað samninginn. Hanning sagði að hann ætti von á að Dagur yrði lengi hjá félaginu og myndi jafnvel skuldbinda sig til næstu sex ára en Dagur sagði að skrifað yrði undir tveggja ára samning fyrst um sinn.

Dagur kom til Íslands vorið 2007 eftir ellefu ára veru í atvinnumennsku í Þýskalandi, Japan og síðustu fjögur árin sem spilandi þjálfari Bregenz í Austurríki. Hann stýrði liðinu til austurríska meistaratitilsins öll fjögur árin.

„Ég er tiltölulega nýfluttur heim og var ekkert á leiðinni út aftur. En svo kom þetta upp og mér fannst það virkilega spennandi að taka við þessu liði," sagði Dagur. „Það var mikill áhugi af þeirra hendi og ég ákvað því að kýla á þetta."

Hann hefur starfað sem framkvæmdarstjóri Vals síðan hann kom heim en fyrr á árinu hóf hann einnig störf sem landsliðsþjálfari Austurríkis. Hann mun halda því starfi áfram fram yfir EM sem fer fram í Austurríki árið 2010.

Dagur sagðist aðspurður ekki hafa tekið starfinu vegna efnahagsástandsins hér á landi. „Það hafði engin úrslitaáhrif á mína ákvörðun. Valsmenn skilja mína afstöðu vel og þetta kemur ekki á slæmum tíma hjá þeim þar sem félagið er að skera niður kostnað. Ég mun þó áfram sinna þessu starfi þar til ég fer út."

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem lið frá Þýskalandi sýnir Degi áhuga en hann hefur hingað til ekki viljað snúa aftur til Þýskalands þar sem hann lék árum áður.

„Ég hafði ekki áhuga á því að fara í neðrideildarliðin. Ef svo hefði ég gert það strax eftir Bregenz. Ég átti reyndar alls ekki von á því að fá tilboð frá þetta stóru félagi strax, kannski frekar eftir EM 2010."

Hann segist ætla að framkvæma einhverjar breytingar á liðinu þegar hann hefur störf. „Ég ætla að reyna að fá skandinavískt yfirbragð á þetta lið enda þarf að styrkja það og stoppa í nokkur göt. Ég kem þó til með að þétta hópinn og byggja á þeim kjarna sem er fyrir hjá félaginu."

Uppgangur Füchse Berlin hefur verið gríðarlega mikill undanfarin ár en félagið var nánast gjaldþrota fyrir þremur og hálfu ári og ekki með keppnisleyfi.

„Uppgangurinn er það sem flestir hafa verið að fylgjast með hjá þessu félagi. Fyrir nokkrum árum var það næstum fallið úr B-deildinni og um 200 manns komu að meðaltali á heimaleiki liðsins."

„Á síðustu leiktíð fékk liðið að meðaltali 5-6 þúsund áhorfendur á heimaleiki sína. Þar að auki spilaði liðið gegn Lemgo í glænýrri höll í haust, O2-höllinni sem tekur 15 þúsund manns í sæti. Það var uppselt á þann leik. Það er áætlað að spila tvo leiki til viðbótar í þeirri höll á leiktíðinni, gegn Kiel og Magdeburg."

„Berlín á meistaralið bæði í hokkí og körfubolta sem spila í O2-höllinni. Þá gengur Herthu Berlín einnig vel í fótboltanum. Það er líka stefnt að því að gera Berlín að höfuðborg handboltans í Þýskalandi."


Tengdar fréttir

Füchse Berlin: Dagur verður næsti þjálfari okkar

Dagur Sigurðsson mun af öllum líkindum verða næsti þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlin en þetta sagði framkvæmdarstjóri félagsins í samtali við Vísi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×