Handbolti

Füchse Berlin: Dagur verður næsti þjálfari okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson er næsti þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson er næsti þjálfari Füchse Berlin. Mynd/HAGENpress/Leo Hagen

Dagur Sigurðsson mun af öllum líkindum verða næsti þjálfari þýska úrvalsdeildarfélagsins Füchse Berlin en þetta sagði framkvæmdarstjóri félagsins í samtali við Vísi í dag.

„Það lítur út fyrir að hann muni taka við starfi þjálfara í sumar," sagði Bob Hanning, framkvæmdarstjóri Füchse Berlin, í samtali við Vísi í dag. „Það er ekki búið að skrifa undir samninginn enn en það verður líklega gert í þessari viku. En við höfum sammælst um þetta."

Enn fremur sagði Hanning að Dagur myndi skrifa undir langan samning. „Ég tel að þetta verði langtímasamningur, ekki til tveggja eða þriggja ára heldur að minnsta kosti til sex ára."

Hanning sagði að hann hafi verið á Íslandi fyrir stuttu og rætt þá við Dag.

„Það kom mér þægilega á óvart að framtíðarsýn hans og framtíðarsýn okkar er nákvæmlega sú sama. Ég vildi fá þjálfara frá Norðurlöndunum og mann sem skilur íþróttina vel. Dagur var vitanlega leikstjórnandi og fyrirliði íslenska landsliðsins og passar okkur því mjög vel."

„Hann skoðaði nokkra leiki okkar á myndbandi og þar kom hann strax auga á ýmislegt eins og maður sem væri búinn að þjálfa liðið undanfarin þrju ár."

„Ég sagði honum að ég vildi fá hann. Þá sagði hann að hann þyrfti ekki að taka þessu starfi en að hann vildi það gjarnan. Það þótti mér mjög vænt um. Hann mun flytja hingað með fjölskyldu sinni og finnst mér það einnig mikilvægt."

Füchse Berlin var nýliði í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili eftir að hafa gengið í gegnum miklar fjárhagshremmingar.

„Fyrir þremur og hálfu ári átti félagið engan pening og var ekki heldur með keppnisleyfi. Ég hef á þessum tíma þurft að margar ákvarðanir samkvæmt minni sannfæringu og vildi ég fá þjálfara eins og Dag. Þjálfara sem er hungraður og vill sinna starfinu eins vel og hann mögulega getur."

Dagur hefur undanfarið gegnt starfi framkvæmdarstjóra Vals auk þess sem hann er landsliðsþjálfari austurríska karlalandsliðsins.

„Dagur mun geta áfram sinnt starfi landsliðsþjálfara Austurríkis, að minnsta kosti fram yfir EM 2010," sagði Hanning enn fremur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×