Viðskipti erlent

Abramovich í 4 milljarða dollara málaferlum í London

Tveir rússneskir milljarðamæringar, þeir Roman Abramovich og Boris Berezovsky, slást nú um fjóra milljarða dollara fyrir rétti í London.

Málið varpar ljósi á það hvernig kaupin gerðust á eyrinni eftir hrun Sovétríkjanna og tilkomu Boris Jeltsin og síðar Valdimir Putin að valdastólunum í Rússlandi. Boris Berezovsky sakar Ambarovich um að hafa svikið sig um 2,3 milljarða dollara hlut í olíufyrirtækinu Sibneft og 1,7 milljarða dollara hlut í álfyrirtækinu Rusal.

Berezovsky sakar Abarmovich um að hafa nýtt sér vinskap sinn við Valdimir Putin til að hóta sér því að rússnesk stjórnvöld myndu gera hlut hans í Sibneft upptækann. Ef hann seldi Abarmovich hinsvegar hlutinn myndi náinn samstarfsmaður Berezovsky verða látinn laus úr fangelsi.

Vangaveltur um samband þeirra Berezovsky og Abaramovich hafa lengi verið til umræðu í breskum fjölmiðlum en sá fyrrnefndi dvelur í útlegð í Bretlandi og sá síðarnefndi er einn af ríkustu mönnum heims.

Þegar Jeltsin á sínum tíma einkavæddi Sibneft ákváðu Berezovsky, Abramovich ásamt þriðja manni sem nú er látinn að skipta því bróðurlega á milli sín. Síðan hefur verulega slettst upp á vinskap þeirra tveggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×