Þjóðnýting Glitnis Þorsteinn Pálsson skrifar 30. september 2008 00:01 Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að þjóðnýta Glitni er söguleg hvort heldur litið er á atburðinn af sjónarhóli markaðarins eða stjórnmálanna. Þetta er stærsta einstaka ráðstöfun fjármuna sem tekin hefur verið. Aldrei hafa jafn margar krónur verið færðar til á jafn fáum klukkutímum. Segja má að þessi mikla ákvörðun geri tvennt í senn: Annars vegar sendir hún skýr skilaboð út á markaðinn sem eru til þess fallin að auka trú og traust á efnahagskerfið. Á hinn bóginn vekur hún gamlar og nýjar spurningar um peningastefnuna. Allt frá því að óróleika fór að gæta á erlendum fjármálamörkuðum hafa íslensk stjórnvöld fullyrt að ríkið stæði að baki íslensku fjármálafyrirtækjunum. Þjóðnýting Glitnis í tímabundinni lánsfjárkreppu sýnir með ríkum áhrifum bæði hér heima og erlendis að við þær yfirlýsingar er staðið. Viðbrögðin eru fumlaus. Engu er líkara en þau ráðist af fyrirframgerðri viðbragðsáætlun. Öllum má vera ljóst að stöðvun bankans við þessar aðstæður hefði haft mun dýpri og þyngri áhrif bæði á viðskiptalífið og heimilin í landinu. Að þessu leyti er engum vafa undirorpið að betra var að aðhafast en láta skeyta að sköpuðu. Seðlabankinn var sýnilega við stýrið en ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni. Við aðstæður eins og þessar vaknar eðlilega sú spurning hvers vegna þjóðnýtingarleiðin var valin. Rétt er að í því felst vörn fyrir skattborgarana. En þegar þessi spurning er sett fram verður að horfa til þess að bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa sætt gagnrýni fyrir tvennt: Annars vegar fyrir að láta undir höfuð leggjast að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega og hins vegar fyrir að sinna ekki í sama mæli og seðlabankar annarra Norðurlanda því viðfangsefni að gera gjaldeyrisskiptasamninga. Stjórnarþingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson settu fyrr á þessu ári fram sjónarmið um mikilvægi þess að Seðlabankinn gerði ráðstafanir til að auðvelda bönkunum að veita eðlilegu súrefni inn í atvinnulífið. Gagnrýni bæði atvinnulífsins og samtaka launafólks hefur beinst að þessu sama á undanförnum mánuðum. Bankastjórn Seðlabankans hefur talið þessa gagnrýni léttvæga. Í gær kom fram af hálfu bankastjórnarinnar að hún hefði fyllsta traust á stjórnendum Glitnis, eiginfjárstaða hans væri afar sterk og allt útlit væri fyrir að ríkissjóður geti selt hlut sinn með góðum hagnaði á næstu misserum. Þessar yfirlýsingar benda til þess að slæmur rekstur hafi ekki verið orsök þess að bankinn komst í hann krappan heldur tímabundnir erfiðleikar við fjármögnun. Í þessu ljósi er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ekki var talið rétt að Seðlabankinn kæmi fram sem lánveitandi til þrautavara við þessar aðstæður. Miðað við sveigjanleg viðbrögð erlendra seðlabankan við aðstæður líkum þessum er þörf á að skýra þessa atburði betur og þá grundvallarstefnu sem að baki býr. Verður sömu ráðum fylgt ef frekari aðstoðar verður þörf á fjármálamarkaði? Dagurinn í gær var ekki lokadagur umbrota í þjóðarbúskapnum. Þó að þessi umfangsmikla þjóðnýting hafi vissulega svarað kalli um öryggi á fjármálamarkaðnum gerir hún, hvað sem því líður, spurningar um peningastefnuna og krónunna enn áleitnari en fyrr. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Réttlæti Hallgríms Helgasonar Hildur Sverrisdóttir Skoðun Hversu góð eru laun lækna? Teitur Ari Theodórsson Skoðun Ég er alveg nógu verðmæt eins og ég er! Ragnheiður Stephensen Skoðun Verklausi milljónakennarinn Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun „Ekki í mínum bakgarði, TAKK!“ Davíð Bergmann Skoðun Þarf alltaf að vera svín 2024 Darri Gunnarsson,Rósa Líf Darradóttir Skoðun Af hverju ætti ungt fólk að kjósa Sjálfstæðisflokkinn? Anton Berg Sævarsson Skoðun Þess vegna talar ChatGPT íslensku Lilja Dögg Alfreðsdóttir Skoðun Atvinnubótastarfsemi framboða DIljá Mist Einarsdóttir Skoðun xD frelsi til að halda ungu fólki niðri Yngvi Sighvatsson Skoðun
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að þjóðnýta Glitni er söguleg hvort heldur litið er á atburðinn af sjónarhóli markaðarins eða stjórnmálanna. Þetta er stærsta einstaka ráðstöfun fjármuna sem tekin hefur verið. Aldrei hafa jafn margar krónur verið færðar til á jafn fáum klukkutímum. Segja má að þessi mikla ákvörðun geri tvennt í senn: Annars vegar sendir hún skýr skilaboð út á markaðinn sem eru til þess fallin að auka trú og traust á efnahagskerfið. Á hinn bóginn vekur hún gamlar og nýjar spurningar um peningastefnuna. Allt frá því að óróleika fór að gæta á erlendum fjármálamörkuðum hafa íslensk stjórnvöld fullyrt að ríkið stæði að baki íslensku fjármálafyrirtækjunum. Þjóðnýting Glitnis í tímabundinni lánsfjárkreppu sýnir með ríkum áhrifum bæði hér heima og erlendis að við þær yfirlýsingar er staðið. Viðbrögðin eru fumlaus. Engu er líkara en þau ráðist af fyrirframgerðri viðbragðsáætlun. Öllum má vera ljóst að stöðvun bankans við þessar aðstæður hefði haft mun dýpri og þyngri áhrif bæði á viðskiptalífið og heimilin í landinu. Að þessu leyti er engum vafa undirorpið að betra var að aðhafast en láta skeyta að sköpuðu. Seðlabankinn var sýnilega við stýrið en ábyrgðin hvílir á ríkisstjórninni. Við aðstæður eins og þessar vaknar eðlilega sú spurning hvers vegna þjóðnýtingarleiðin var valin. Rétt er að í því felst vörn fyrir skattborgarana. En þegar þessi spurning er sett fram verður að horfa til þess að bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin hafa sætt gagnrýni fyrir tvennt: Annars vegar fyrir að láta undir höfuð leggjast að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nægjanlega og hins vegar fyrir að sinna ekki í sama mæli og seðlabankar annarra Norðurlanda því viðfangsefni að gera gjaldeyrisskiptasamninga. Stjórnarþingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson settu fyrr á þessu ári fram sjónarmið um mikilvægi þess að Seðlabankinn gerði ráðstafanir til að auðvelda bönkunum að veita eðlilegu súrefni inn í atvinnulífið. Gagnrýni bæði atvinnulífsins og samtaka launafólks hefur beinst að þessu sama á undanförnum mánuðum. Bankastjórn Seðlabankans hefur talið þessa gagnrýni léttvæga. Í gær kom fram af hálfu bankastjórnarinnar að hún hefði fyllsta traust á stjórnendum Glitnis, eiginfjárstaða hans væri afar sterk og allt útlit væri fyrir að ríkissjóður geti selt hlut sinn með góðum hagnaði á næstu misserum. Þessar yfirlýsingar benda til þess að slæmur rekstur hafi ekki verið orsök þess að bankinn komst í hann krappan heldur tímabundnir erfiðleikar við fjármögnun. Í þessu ljósi er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ekki var talið rétt að Seðlabankinn kæmi fram sem lánveitandi til þrautavara við þessar aðstæður. Miðað við sveigjanleg viðbrögð erlendra seðlabankan við aðstæður líkum þessum er þörf á að skýra þessa atburði betur og þá grundvallarstefnu sem að baki býr. Verður sömu ráðum fylgt ef frekari aðstoðar verður þörf á fjármálamarkaði? Dagurinn í gær var ekki lokadagur umbrota í þjóðarbúskapnum. Þó að þessi umfangsmikla þjóðnýting hafi vissulega svarað kalli um öryggi á fjármálamarkaðnum gerir hún, hvað sem því líður, spurningar um peningastefnuna og krónunna enn áleitnari en fyrr.