Sport

Rice gaf Phelps ekkert eftir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stephanie Rice brosir til áhorfenda í nótt.
Stephanie Rice brosir til áhorfenda í nótt. Nordic Photos / AFP
Stephanie Rice frá Ástralíu gerði sér lítið fyrir og bætti heimsmetið í 400 metra fjórsundi um 1,67 sekúndur er hún vann til gullverðlauna í greininn á Ólympíuleikunum í Peking.

Fyrr í nótt bætti Phelps heimsmetið í 400 metra fjórsundi karla um 1,41 sekúndu og því um mikla bætingu að ræða í þessari grein í bæði karla- og kvennaflokki.

Rice kom í mark á 4:29,45 mínútum og var með talsverða yfirburði í sundinu lengst af. Helst var að Kirsty Coventry frá Zimbabwe næði að ógna forskoti hennar eftir baksundið en þá stakk Rice aftur af.

Gamla heimsmetið átti Katie Hoff frá Bandaríkjunum en hún kom meira en tveimur sekúndum á eftir Rice í mark.

Rice er einnig heimsmetshafi í 200 metra fjórsundi og þykir líklegust til afreka í þeirri grein á Ólympíuleikunum.

Keppt var til úrslita í tveimur greinum til viðbótar í nótt. Park Tae-Hwan frá Suður-Kóreu vann gull í 400 metra skriðsundi er hann synti á 3:41,86 sem er nýtt Asíumet.

Þá vann sveit Hollands gull í 4x100 metra skriðsundi en bandaríska sveitin varð í öðru sæti og sú ástralska fékk bronsið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×