Viðskipti erlent

Auðkýfingurinn Oleg Boyko þenur veldi sitt

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Spilavíti. Myndin tengist ekki þessari frétt.
Spilavíti. Myndin tengist ekki þessari frétt.

Rússneski auðkýfingurinn Oleg Boyko, eigandi stærsta fjárhættuspilafyrirtækis Austur-Evrópu, hyggst safna einum og hálfum milljarði bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 115 milljarða króna, með það að augnamiði að færa út kvíar veldis síns.

Ætlunin er að Ritzio Entertainment Group, fyrirtæki Boykos, kaupi nokkrar fjárhættuspilakeðjur í Evrópu og Rómönsku-Ameríku en rússnesk stjórnvöld hyggjast takmarka mjög leyfi til slíkrar starfsemi á næsta ári og binda þau við stærstu borgir landsins auk fáeinna svæða.

„Erlend spilafyrirtæki græða á tá og fingri og eru mjög arðvænleg," sagði Boyko í viðtali í Moskvu nýlega en hann er samkvæmt auðlista tímaritsins Forbes 65. auðugasti maður Rússlands. Veldi Boykos nær enn fremur til smásöluverslunar og fasteignaviðskipta í Rússlandi. „Nú eru meiri peningar í umferð í Rússlandi, tekjur fara ört hækkandi og samkeppnin er lítil, einkum á sviði matvöruverslunar," lét hann hafa eftir sér.

Bloomberg greindi frá þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×