Viðskipti innlent

Green eignast Baug ekki á brunaútsölu

Engar líkur eru á að Philip Green eignist Baug fyrir þær fjárhæðir sem hann býður íslenska ríkinu. Erlendir og innlendir lánardrottnar íslensku bankanna eru sagðir setja sig upp á móti því að Green fái Baug á brunaútsölu. Jón Ásgeir Jóhannesson segir það koma í ljós á næstu dögum hvort að hann missi félagið.

Baugur hefur verið uppnefnt gulleggið í körfu bankanna og því eru erlendir lánadrottnar ekki sagðir getað unað við það að Philip Green eignist Baug á brunaútsölu. Heimildir fréttastofu herma að Green hafi aðeins boðið íslenska ríkinu sem nemur 10 prósentum af heildarvirði skulda Baugs. Erlendir ánadrottnar hafa sent hingað til lands stóran hóp manna á undanförnum dögum til að gæta hagsmuna sinna og til að koma í veg fyrir að verðmætin, sem íslensku bankarnir liggja á, gufi upp.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, segist óttast það að missa fyrirtækið á næstu dögum ef ekkert yrði að gert. Hann vildi ekki tjá sig um tilboð Greens í skuldir Baugs hjá íslensku bönkunum.

Finnur Sveinbjörnsson, í skilanefnd Kaupþings, staðfesti í samtali við fréttastofu að skilanefndin hefði móttekið tilboð Greens og það væri lágt. Hann vildi ekki tjá sig um það hvenær nefndin hygðist svara Green.

Heimildir fréttastofu herma að framtíð Baugs og fyrirtækja þess ráðist af því hversu hratt skilanefndir Landsbankans og Kaupþings vinna. Hermt hefur verið að búðir fyrirtækja Baugs, að Iceland verlunarkeðjunni undanskilinni, verði lokaðar á morgun en Jón Ásgeir vildi ekki staðfesta það í samtali við fréttastofu. Hann sagði engin áform uppi um slíkt.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×