Viðskipti erlent

Gengið fellur í Yahoo

Gengi í bréfum Yahoo sem skráð eru á markaði í Þýskalandi féll um 17 prósent í kjölfar þess að tölvurisinn Microsoft féll frá kauptilboði sínu í félagið. Sérfræðingar búast við því að bréf í fyrirtækinu á Bandaríkjamarkaði lækki einnig skarpt í dag.

Samningurinn fór út um þúfur vegna þess að samningsaðilar gátu ekki komist að samkomulagi um kaupverðið. Þar skeikaði nokkrum milljörðum bandaríkjadala en þó er ekki hægt að segja að eigendur Yahoo hefðu verið á flæðiskeri staddir hefðu þeir tekið síðasta tilboði Microsoft. Það hljóðaði upp á tæpa 48 milljarða bandaríkjadala eða um 33 dali á hlut.

Forsvarsmönnum Yahoo þótti þó ekki nóg boðið en þeir vildu 53 milljarða dala eða um 33 dali á hlut. Microsoft var ekki tilbúið til að seilast svo langt til þess að ná undir sig Yahoo en þeir höfðu séð tækifæri í því að eignast félagið og styrkja það til að berjast við Google sem er nær einráða á auglýsingamarkaði á netinu.

Eins og áður sagði lækkuðu Yahoo bréfin við opnun í kauphöllinni í Frankfurt í morgun og eru bréfin nú í rétt rúmum 23 dölum á hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×