Handbolti

Frakkar í miklu basli með Slóvaka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claude Onesta, þjálfari Frakka.
Claude Onesta, þjálfari Frakka. Nordic Photos / Getty Images

Fyrsta leik D-riðils á EM í Noregi er lokið en Frakkar unnu þar afar nauman sigur á Slóvökum.

Frakkar unnu á endanum eins marks sigur, 32-31, en staðan í hálfleik var 20-18, Frökkum í vil.

Slóvakar fengu tækifæri til að jafna metin undir lok fyrri hálfeiks en þess í stað juku Frakkar forskotið í tvö mörk.

Frakkar eru með eitt besta varnarlið á EM og því athyglisvert að Slóvakar hafi skorað átján mörk gegn þeim í fyrri hálfleik.

Það dró þó talsvert úr hraða leiksins í síðari hálfleik og náðu Frakkar snemma ótvíræðum undirtökum í leiknum.

Frakkar komust í fimm marka forystu, 24-19, þegar 20 mínútur voru til leiksloka en Slóvökum tókst að minnka muninn aftur í eitt mark, 26-25.

En Frakkarnir náðu aftur góðri forystu í stöðunni 31-27 en aftur létu Slóvakar ekki segjast og náðu að jafna metin, 31-31, þegar lítið var eftir af leiknum.

Frakkar skoruðu úr víti þegar fimmtán sekúndur voru til leiksloka en Slóvökum tókst ekki að jafn metin á nýjan leik.

Sannarlega óvænt úrslit og ljóst að Slóvakar eru sýnd veiði en ekki gefin.

Olivier Girault skoraði sex mörk fyrir Frakka en þeir Jerome Fernandez, Bretrand Gille og Daniel Narcisse skoruðu allir fimm mörk.

Hjá Slóvökum var Frantisek Sulc markahæstur með tíu mörk og Radoslav Antl bætti við fimm. 

Einn leikur í A-riðli fór fram á sama tíma. Slóvenía vann tveggja marka sigur á Tékkum, 34-32.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×