Viðskipti innlent

Kalla eftir sameiginlegu átaki allrar þjóðarinnar

Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ræða hér hugmyndir sínar um framvindu efnahagsmála við Björn Inga Hrafnsson viðskiptaritstjóra á Markaðnum. Þeir segja útséð um framtíð krónunnar náist ekki að hemja sveiflurnar í gengi hennar.
Fréttablaðið/Arnþór
Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ræða hér hugmyndir sínar um framvindu efnahagsmála við Björn Inga Hrafnsson viðskiptaritstjóra á Markaðnum. Þeir segja útséð um framtíð krónunnar náist ekki að hemja sveiflurnar í gengi hennar. Fréttablaðið/Arnþór

Mikla athygli vakti í febrúar, er þið félagarnir skrifuðuð grein í Morgunblaðið þar sem lýst var áhyggjum af efnahagsástandinu og settar fram ýmsar tillögur til úrbóta. Síðan er tæplega hálft ár liðið og staðan hefur örugglega ekki batnað, hvorki hér heima né í hinu alþjóðlega umhverfi. Hvernig metið þið stöðuna nú?

Bjarni: „Það er vá fyrir dyrum og það er mjög mikilvægt að það taki að birta til. Þetta eru ekki hagsmunir sem eru einangraðir við einhverja tiltekna atvinnustarfsemi og óháðir hagsmunum almennings, heldur er gríðarlegt hagsmunamál fyrir allt þjóðfélagið að okkur takist að vinna okkur út úr þerri stöðu sem nú er uppi.“

Illugi: „Við búum við þær aðstæður að stýrivextir eru yfir 15 prósentum, verðbólgan er mikil og við erum lent í þeirri stöðu að fyrirtækin í landinu, sem gátu áður fjármagnað sig með erlendum lánum, hafa engin tækifæri til þess í dag. Af þessum sökum stefnir í mjög alvarlegar þrengingar í atvinnulífi þjóðarinnar á næstu mánuðum.“

Hætta á að atvinnulífi blæði út
Viðtal Björns Inga Hrafnssonar við alþingismennina Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson

Seðlabankinn hefur í tvígang haldið stýrivöxtum óbreyttum í 15,5 prósentum og jafnframt sagt að lækkunarferli hefjist mun síðar en áður hafði verið vænst. Atvinnulífið segist ekki þola slíkt vaxtastig. Er ekki hætta á að því blæði hreinlega út?

Illugi: „Jú, það er nú staðan. Seðlabankanum er þetta auðvitað fullljóst. Þeir hafa sagt: Við verðum að hafa vextina svona háa til þess að gengið falli ekki. Sú stefna er alveg skýr af hálfu bankans og ég sé ekki að því verði breytt á næstu vikum eða mánuðum. Það sem skiptir þá öllu máli er að geta hjálpað bankanum að skapa þær aðstæður að vaxtalækkunarferli geti hafist. En bankinn býr líka við þá áhættu að hávaxtastefnan ein og sér leiði til enn frekari gengisfellingar en þegar er orðin. Ef samdrátturinn verður verulegur og hagkerfið veikist mikið þá mun gengið falla í kjölfarið, alveg sama þó að vextirnir séu háir. Jafnframt mun alvarlegur samdráttur í hagkerfinu leiða til þess að íslensku bönkunum mun ganga enn verr að fjármagna sig erlendis og þar með mun kreppan dýpka enn. En um leið er líka hættulegt að fara í lækkun vaxta í þessari stöðu því það kann þá að reyna mjög á gengið og jafnframt myndu neikvæðir raunvextir höggva skörð í sparnað í landinu. Við erum því miður komin í þá bölvanlegu stöðu að þær tvær leiðir sem eru í boði eru báðar mjög hættulegar og geta reynst mjög erfiðar fyrir íslenskt þjóðarbú. Þetta eru í grófum dráttum valkostirnir sem við höfum.“

Vítahringur jöklabréfanna
Viðtal Björns Inga Hrafnssonar við alþingismennina Bjarna Benediktsson og Illuga Gunnarsson

Hundruð milljarða eru nú bundin í svonefndum jöklabréfum. Stór hluti þeirra er á gjalddaga á næstu vikum og mánuðum. Spilar það ekki inn í gengismálin og stýrivexti Seðlabankans?

Illugi: „Jú, og við verðum að komast út úr þessari stöðu. Það er vont að hundruð milljarða séu hér í hagkerfinu vegna spákaupmennsku aðila sem gera út á vaxtamun milli landa og skeyta í engu um afkomu þjóðarinnar eða framtíð hennar. Við verðum að komast út úr þeim vítahring og fá þess í stað erlenda fjármuni í formi langtíma fjárfestingar. Ég tel að peningamálastefna Seðlabankans hafi lent í miklum ógöngum, því þegar haldið var af stað með verðbólgumarkmiðið var hugsunin þessi: vextirnir eiga að hafa áhrif á hagkerfið sjálft, en gengið á að ráðast á markaði. Nú erum við komin í þá erfiðu stöðu að nota vextina fyrst og fremst til þess að stýra genginu og það kallar á endurmat peningamálastjórnarinnar. Auðvitað er hægt að stöðva verðbólgu með því að drepa hagkerfið með vöxtum en það er ekki ásættanleg niðurstaða.“

Hvernig getum við Íslendingar unnið okkur út úr þessum þrengingum?

Bjarni: „Ég tel að við séum komin að ákveðnum tímamótum. Við höfum upplifað langt hagvaxtarskeið með mjög háu atvinnustigi, stöðugum vexti kaupmáttar og uppgangi á flestum sviðum. Nú gerist það í lok þessa mikla framkvæmdatímabils sem staðið hefur yfir í tengslum við virkjanir og álver að skilyrði á erlendum lánamörkuðum eru mjög erfið á sama tíma og vextir eru í hæstu hæðum. Gleymum því ekki að við höfum einnig þurft að skera niður þorskkvóta. Það má því segja að sótt sé að okkur úr mörgum áttum í einu. En allar þrengingar fela í sér ákveðin tækifæri. Við förum í tiltekt í kerfinu, styrkjum stoðirnar, förum í ákveðna naflaskoðun og það skapast andrúmsloft til að ræða í víðu samhengi í hverju styrkleikar okkar og tækifæri liggja.

Verkefni okkar á næstunni er að viðhalda hér hagvexti. Þegar aðgangur að erlendu lánsfé verður aftur greiðari munu þau hagkerfi sem eiga blómlegustu framtíðina fyrir sér lenda framar í röðinni en hin sem horfa fram á stöðnun eða lítinn sem engan hagvöxt. Þess vegna skiptir gríðarlegu máli fyrir atvinnulífið í landinu og eins með tilliti til fyrirhugaðrar lántöku ríkissjóðs í útlöndum og þau lánakjör sem þar verða í boði, að hægt sé að sýna fram á að íslenskt hagkerfi horfi ekki fram á langvarandi stöðnunarskeið heldur sé það þvert á móti trúverðugt og líklegt til að braggast skjótt, eflast á ný og viðhalda vexti.

Stjórnvöld verða að tala skýrt í orkumálunum

Það er augljóst að við hljótum í þessu tilliti að horfa til nýtingar náttúruauðlinda okkar, því þar höfum við sannanlega forskot á aðrar þjóðir. Við skulum halda áfram nýsköpun og reyna að stækka flóruna af atvinnustarfsemi í landinu en blekkjum okkur ekki með því að við séum slíkir snillingar umfram aðrar þjóðir að við höfum efni á því að líta fram hjá tækifærum sem standa okkur næst. Við núverandi aðstæður tel ég afar mikilvægt að frá pólitíkinni komi alveg skýr rödd um hvert ferðinni sé heitið. Í orkunýtingarmálum eru spennandi og vænleg verkefni á teikniborðinu og sægur tækifæra. Þegar er búið að taka skóflustungu að álveri í Helguvík, jafnframt því sem mikill undirbúningur hefur átt sér stað vegna álversins sem fyrirhugað er á Bakka við Húsavík. Þetta eru hvort tveggja verkefni sem verður að greiða fyrir eftir því sem kostur er. Það má engum blandast um það hugur að það sé stjórnvöldum á Íslandi hugnanlegt að þau verði að veruleika. Hik og hálfkák er það síðasta sem við þurfum á að halda.“

Illugi: „Við verðum einmitt að senda mjög skýr og afdráttarlaus skilboð um þetta út í alþjóðasamfélagið. Ef við siglum inn í mikla kreppu er sú hætta auðvitað fyrir hendi að alþjóðlegir lánveitendur ákveði að lána ekki íslensku bönkunum peninga, þegar ljóst sé að hagkerfi þeirra sé á leiðinni niður. Síðan skulum við ekki gleyma því að fjárfesting í orkuöflun og orkufrekum iðnaði er ekki einungis varnaraðgerð til að brjótast út úr núverandi vanda. Við Íslendingar erum orkuframleiðendur, heimurinn hrópar á orku, og við höfum það fram yfir flesta aðra að orkan er ekki flutt út í tunnum eins og olía, þeir sem vilja nýta hana verða að fjárfesta á Íslandi. Orkan okkar er hrein og endurnýjanleg og engin þjóð lætur annað eins tækifæri fram hjá sér fara. Og við eigum mikla möguleika sem matvælaframleiðendur, þar á sóknarfærunum bara eftir að fjölga á næstu árum rétt eins og í ferðaþjónustu, líftækni og í menningu. Reyndar skiptir það höfuðmáli fyrir okkur að það verði hægt að auka þorskafla á næstu árum. Það styrkir útflutninginn og það er lífsnauðsynlegt fyrir landsbyggðina að auka tekjurnar í sjávar­útvegi. Öflug framleiðsla og útflutningur ásamt traustum fjármálamarkaði býr til ramma utan um nýsköpun, þróun og þekkingu. Síðast en ekki síst þá grundvallast stöðugur gjaldmiðill á öflugu og stöðugu hagkerfi.“

Bjarni: Þetta er þeim mun augljósara þegar haft er í huga að skuldlaus ríkissjóður hefur á þessu ári ekki átt greiðan aðgang að lánsfé á viðunandi kjörum. Þegar horft er til þeirrar ótrúlegu staðreyndar sést auðvitað hversu mikið þarf að koma til eigi að takast að sannfæra lánveitendur og fjárfesta erlendis.“

bankar stofni kannski dótturfélög erlendis

Illugi: „Við verðum síðan að halda áfram tiltektinni sem er þegar hafin í hagkerfinu og jafnframt að styrkja Seðlabankann þannig að hann geti sinnt betur hlutverki sínu sem uppspretta lausafjár fyrir bankakerfið. Bankarnir verða að halda áfram sinni vinnu og skoða allar leiðir til að létta álagið á hagkerfinu, til dæmis að stofna sérstök dótturfélög um tiltekna starfsemi sína erlendis. Jafnframt er nauðsynlegt að það verði sameiningar á íslenskum fjármálamarkaði og það sem fyrst, það eru allt of margar fjármálastofnanir með starfsemi hér, færri og stærri einingar eru líklegri til að standa af sér þá storma sem nú geisa.“

Bjarni: Hér skiptir líka máli að fjármálaeftirlitið hafi nauðsynlegan stuðning og öllum vafa um getu þess til að fylgja eftir stækkun bankanna og sinna sínu hlutverki sé eytt. Fjármálafyrirtækin hafa vaxið hratt og skapað mörg vel launuð störf á Íslandi. Nú kreppir að hjá þeim og við eigum að bregðast við með því að styrkja umhverfi þeirra og umgjörð.

Stóriðja hefur verið mjög umdeild hér á landi. Er pólitískur vilji fyrir því innan ríkisstjórnarflokkanna að fara í þá uppbyggingu sem þið teljið nauðsynlega? Myndi þetta ekki kalla á fleiri umdeildar virkjanir? Þolir samstarfið það?

Illugi: „Það má vera að það sé einhver áherslumunur í þessum efnum milli flokkanna. En ég held að við þær aðstæður sem við búum við núna væri fullkomlega óábyrgt að klára ekki þessi mál skynsamlega. Upp á síðkastið hefur Samfylkingin verið gagnrýnd fyrir að hafa horfið frá kosningastefnu sinni um Fagra Ísland, en ég held að sumir hafi lesið þá stefnu eins og skrattinn Biblíuna forðum. Nýting umhvefisvænna orkugjafa er í engri þversögn við þá stefnu. Þvert á móti getur hún að mörgu leyti verið leiðarvísir um hvernig haga beri hinni nýju orkusókn án þess að hlutur náttúru og náttúruverndar sé fyrir borð borinn. Margt í henni fellur ágætlega að hugmyndum okkar „hægri grænna“ og í þeim efnum ber minna á milli stjórnarflokkanna en margir vilja halda.

Hvað með frekari jarðhitavirkjanir á vegum Orkuveitunnar á Hellisheiði.

Meirihluti ykkar sjálfstæðismanna og F-lista virðist hafa tekið Bitruvirkjun út af borðinu, þrátt fyrir að hún hafi verið lengi á teikniborðinu?

Bjarni: „Mín skoðun er sú að í þeim efnum hafi menn einfaldlega hlaupið á sig. Ég trúi því að áður en mjög langt um líður muni menn átta sig á því og vinda ofan af þeirri ákvörðun og taka aftur til við virkjanir á Hellisheiðinni. Þar er nægur jarðhiti.“

Illugi: „Ég er sammála þessu.“

Hvað með þá gagnrýni að uppbygging stóriðjunnar hafi sem slík verið helsti þensluvaldurinn?

eigum að læra af reynslunniBjarni: „Þetta sjónarmið hefur auðvitað mikið verið notað í áróðri gegn frekari orkusókn. Að þá haldi þenslan bara áfram og allt annað líði fyrir með tilheyrandi sveiflum og ójafnvægi. Þannig þarf það alls ekki að vera. Í fyrsta lagi getum við horft til reynslunnar í þeim efnum og lært af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Við fórum auðvitað með augun opin í framkvæmdir á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og töldum að við myndum fást við viðráðanlegt hagstjórnarverkefni á framkvæmdatímanum. Í framhaldinu fóru ákveðnir þættir úrskeiðis, annað setti óvænt strik í reikninginn, einkum það sem tengist Íbúðalánasjóði og mjög brattri innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn. Vextir risu líklega of hátt á tímabili með tilheyrandi styrkingu krónunnar. Þetta hafði allt þensluhvetjandi áhrif. Til viðbótar streymdi ódýrt, erlent lánsfé inn í landið sem aldrei fyrr og fjármagnaði þannig útrás margra fyrirtækja. Ég tel mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því, að við eigum ekki í fyrirsjáanlegri framtíð eftir að sjá slík lánskjör í boði. Ég hef engan hitt í fjármálakerfinu sem gerir ráð fyrir að íslensku viðskiptabankarnir muni aftur geta sótt sér langtímafjármuni með útgáfu skuldabréfa með tuttugu eða þrjátíu punkta álagi. Bara það eitt og sér lítur allt öðruvísi út til framtíðar litið. Skynsamleg tímasetning fyrirhugaðra framkvæmda, ásamt með því að dregnir séu lærdómar af framkvæmdatímabilinu fyrir austan, ætti að koma í veg fyrir óæskilegri áhrif slíkra stórframkvæmda á efnahag landsins en draga fram þess í stað meiriháttar ávinning fyrir þjóðarbúið. Það er því fullt svigrúm fyrir orkufrekar framkvæmdir í hagkerfinu og við megum ekki gleyma því að slíkar fjárfestingar skila arði, vel launuðum störfum og vexti fyrir þjóðfélagið til langs tíma.“ Aflétta leynd af raforkuverði

En hvað með gagnrýni á niðurgreidda stóriðju. Höfum við ekki selt raforkuna allt of ódýrt?

Bjarni: „Menn hafa auðvitað sitthvað til síns máls í því að í gegnum árin voru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að laða að erlenda fjárfestingu, meðal annars á skattasviðinu. Það átti fullan rétt á sér á þeim tíma, enda nánast engin erlend fjárfesting í þessu landi. Nú er umhverfið annað. Fyrir skemmstu sóttist ÍSAL eftir því að komast inn í almenna skattkerfið því það var orðið hagstæðara en þær sértæku ráðstafanir sem gerðar voru fyrir fyrirtækið á sínum tíma. Þetta segir sína sögu. Varðandi raforkuverðið þá er það mín skoðun að það væri langheppilegast að raforkuverð til stóriðju væri uppi á borðum en ekki sveipað leyndarhjúp, en hér þarf líka að taka tillit til viðskiptahagsmuna.“

Illugi: „Það er eðlilegt að þetta fyrirkomulag hafi sætt gagnrýni, enda er þarna um að ræða opinber fyrirtæki sem verðleggur náttúruauðlindir okkar. Ég vil því nota tækifærið og draga úr umsvifum ríkisins og nýta afl einkageirans, ekki síst við stórar áhættufjárfestingar af þessu tagi. Þar tel ég að ný orkulög komi að gagni, nú þegar lögfest hefur verið að orkulindirnar sjálfar verði áfram í opinberri eigu. Þá ætti kannski að vera pólitískt mögulegt að breyta til. Hvað varðar rafmagn til stóriðju liggur fyrir að verðið hefur hækkað mjög á undanförnum árum, enda er það meðal annars tengt álverði. Sumir telja að alls ekki eigi að virkja núna, því orkuverð muni hækka svo mikið í framtíðinni, en samkvæmt því ættum við aldrei að virkja á meðan orkuverð fer hækkandi. Það er munur á takmörkuðum orkuauðlindum og endurnýtanlegum í þessu sambandi.

Þorri íslenskar orku er endurnýtanlegur og þar höfum við forskot og þekkingu, sem við eigum að nýta og koma á framfæri, líkt og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra er óþreytandi við að nefna. Við sjálfstæðismenn höfum talað mjög skýrt fyrir ákveðinni nýtingu innan skynsamlegra marka. Vissulega viljum við sýna varkárni, en nýting og náttúruvernd eru ekki andstæðir pólar. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar verður að haldast í hendur við virðingu fyrir náttúrunni. Okkur sjálfstæðismönnum þykir ekki síður vænt um náttúru landsins en þeim sem hafa reynt að eigna sér náttúruvernd í landinu. En þetta tvennt, vernd náttúrunnar og nýting hennar á að fara saman og verður að fara saman.“

Eru erfiðleikarnir í efnahagslífinu ekki mikið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem fer nú með forystu í ríkisstjórn og hefur verið mjög lengi við völd? Varla áttuð þið von á þessari stöðu þegar þessi ríkisstjórn tók við, með svo sterkan þingmeirihluta?

Illugi: „Já og nei. Við áttum ekki von á að staðan yrði jafn erfið og raun ber vitni, enda þótt ýmsir hafi fyrir löngu verið búnir að benda á að framundan gætu verið erfiðir tímar. Alls kyns hættumerki blöstu vissulega við, mikil skuldsetning íslenskra fyrirtækja erlendis, það má segja að eigið fé hafi dottið úr tísku og viðskiptahallinn var mikill. Í baráttunni við verðbólguna leiddi vaxtastefna Seðlabankans til þess að inni í landið var dælt fleiri hundruð milljörðum og þar með styrktist gengið um of. Of sterkt gengi dró máttinn úr útflutningsatvinnuvegunum en fjármagnaði útrásina með gjaldeyri á lágu verði og eins tryggði sterkt gengi ódýrt verðlag á innfluttum vörum og bjó þannig til falskan kaupmátt. Jafnframt var ekki nægjanlega þétt samband á milli peningamálastefnunnar og ríkisfjármálanna. Það hlaut því að koma einhver leiðrétting og sú leiðrétting er harkaleg. Vandinn hefur síðan magnast upp vegna alþjóðlegu lánsfjárkreppunar og vaxandi verðbólgu í heiminum. Á hinn bóginn verður að muna að á undanförnum áratug og hálfum hefur náðst mikill árangur í efnahagsmálum þjóðarinnar, lífskjör Íslendinga hafa batnað gríðarlega, grundvöllur efnahagsstarfseminnar er miklu breiðari og sterkari en áður og Sjálfstæðisflokkurinn hefur veitt forystu í þeim málum. En eins og alltaf þegar kreppir að í efnahagsmálunum verða afleiðingarnar sérstaklega sárar fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna og græddu ekki peninga í allri þessari bólu, auðvitað er sárt fyrir þá einstaklinga að þurfa nú að þola verðbólgu og okurvexti. Við þurfum eins og hægt er að gæta að hlut þeirra á sama tíma og tekist er á við efnahagsvandann. Þetta er því erfitt próf sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir, en ég hef alla trú á að ríkisstjórnarflokkarnir standist það.“

Bjarni: Það er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að önnur ríki glíma líka við miklar efnahagslegar þrengingar. Við sjáum ástandið í Bandaríkjunum. Víða í Evrópusambandinu er efnahagslegt óveður og þung undiralda. Við þurfum ekki að leita lengra heldur en til Danmerkur, en þar eru blikur á loftir í efnahagslífinu, vandi í fjármálakerfinu, minnkandi hagvöxtur og vaxandi verðbólga. Þannig að aðstæður eru alls ekki einstæðar hér á landi, enda þótt staða okkar sé erfið og sérstök í ljósi smæðar hagkerfisins og alþjóðlegra kringumstæðna. Við verðum sem þjóð og sem sjálfstætt hagkerfi að geta brugðist við slíkum atburðum.“

krónan hefur valdið miklum vandræðum

Íslenska krónan á sér orðið fáa formælendur. Jafnvel sjálfstæðismenn sem eru á móti Evrópusambandinu, virðast skynja að sjálfstæður gjaldmiðill kunni að vera of dýru verði keyptur. Hver eru ykkar skilaboð til þeirra sem glíma við þessar gengissveiflur og eru að berjast við að reka fyrirtæki og heimili?

Illugi: „Þau eru þessi: Staðan er erfið og það verða allir að taka höndum saman. Á næstu tólf til átján mánuðum þarf sameiginlegt átak allrar þjóðarinnar og mjög mun reyna á íslenskt hagkerfi á þessum tíma. Við munum ekki geta leyst þann vanda með því að stefna á upptöku annars gjaldmiðils, eðli vandans er einfaldlega þannig. Ég tel að reynt hafi verið að koma því inn hjá þjóðinni að til sé einhver einföld, sársaukalaus leið út úr vandræðunum og þá verði allt í himnalagi. Það finnst mér vera mikill ábyrgðarhlutur. Bankarnir verða að gera allt til að auðvelda hagstjórnina, Seðlabankinn og ríkisstjórnin verða að gera sitt, atvinnurekendur verða að stilla verðhækkunum í hóf og verkalýðshreyfingin að sýna áfram þá ábyrgð sem forystumenn þar á bæ hafa sýnt á undanförnum árum. Allir þessir aðilar verða að vinna náið saman á næstu mánuðum. En það er eðlilegt að þessi umræða komi upp um gjaldmiðilinn okkar. Sveiflurnar á krónunni hafa verið alltof miklar og takist okkur ekki að vinna bug á því, takist ekki að koma fótunum undir trúverðuga peningamálastefnu, og ég trúi að við getum gert það, þá verður að skoða aðrar leiðir.“

Bjarni: „Það sjá allir og við verðum bara að viðurkenna að krónan hefur valdið okkur miklum vandræðum vegna þess hve óstöðug hún hefur verið. Hún sveiflaðist mikið árin 2001, 2006 og tók aftur dýfu á þessu ári. Fyrri sveiflurnar gengu hratt yfir en þetta eru of miklar sveiflur á svo stuttu tímabili. Við vitum að sjálfstæð lítil mynt mun sveiflast en kostirnir við sjálfstæða peningamálastjórn og sveigjanleikann sem henni fylgir verða að vega upp ókostina af þessum sveiflum. Eins og málum er nú háttað er vafasamt að svo sé. Þess vegna er brýnt að við förum yfir veikleikana á núverandi fyrirkomulagi og skoðum hvernig við getum styrkt peningamálastjórnina. Þá niðurstöðu má síðan bera saman við aðra valkosti sem hafa verið í umræðunni eins og nýja mynt eða mynttengingu. Á hinn bóginn verður enn og aftur að minna á að það er ekki til neinn gallalaus valkostur við krónuna. Írar, Ítalir og fleiri ESB-þjóðir telja evruna til vandræða fyrir sig í dag vegna aðstæðna í þeirra hagkerfi.

Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta þannig að sá sveigjanleiki sem fylgir krónunni kallar á meiri aga í hagstjórn og fyrirtækjarekstri heldur en við höfum búið við undanfarin ár. Í umræðu um ESB kemur oft fram að menn hafa misst trúna á því að við getum beitt þessum aga og þess vegna sé best að hann komi einfaldlega að utan með evrunni. Þessu er ég ósammála en við þurfum vissulega að þétta þessa hluti mjög hjá okkur. Það er athyglisvert hversu hratt tónninn hefur breyst í atvinnulífinu í þessum gjaldmiðilsmálum. Mér sýnist að margir hafi gert upp hug sinn án þess að umræðan um styrkingu á núverandi fyrirkomulagi hafi verið kláruð.“

Hvernig sjáið þið haustið og veturinn fyrir ykkur í stjórnmálunum. Þarf ekki að skera niður í fjárlagagerðinni, standa fast á bremsunni?

Illugi: „Á undanförnum árum hefur ríkisreksturinn þanist út og það hefur skapað vandamál í hagkerfinu. Nú blasir við að geta okkar til að auka við útgjöld til velferðarmála hefur veikst mjög, fjárlagagerðin verður þess vegna erfið. Við þurfum líka að líta betur á fjárlögin og þátt þeirra í hagstjórninni. Við nefnum til dæmis gjarnan að aðhaldsstig þeirra sé hátt vegna þess að afgangurinn hefur verið mikill. En hluti af þessum afgangi hefur orðið til vegna skatttekna sem komu til vegna starfsemi íslenskra fyrirtækja erlends og hefur því lítið að gera með aðhaldið hér heima.

Tekjuafgangurinn getur því verið nokkuð blekkjandi. En þó það séu skaflar fram undan og mörg erfið verkefni bíði, þá er engin ástæða til að örvænta. Það eru allar forsendur fyrir því að við getum leyst þann vanda sem steðjar að, við eigum miklar auðlindir, við búum við rótgróið lýðræði og við erum framtakssöm og úrræðagóð. En allt sem dregur athyglina frá þessu verkefni er til bölvunar. “

Bjarni: „Í mjög einfölduðu máli snýst verkefnið um að verja kaupmátt og atvinnustigið á Íslandi eins vel og við getum og á næstu mánuðum þurfum við að snúa vörn í sókn. Fjárlagagerðin þarf að styðja við þá vinnu. Það hefur skort á samhæfingu á milli ríkisfjármálanna og peningastefnunnar og við höfum ekki efni á því lengur. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir vanda, sem varðar alla þjóðina, og eins og áður munum við vinna okkur út úr honum. Það mun kosta þolinmæði, áræði og framsýni en við höfum góðan grunn að byggja á. Ég kvíði engu í þeim efnum og er sannfærður um að verkefnið leysist farsællega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×