Viðskipti erlent

Blóðbað framundan á ritstjórn The New York Times

Ritstjórn stórblaðsins The New York Times býr sig nú undir blóðbað á næstu tíu dögum en ætlunin er að segja upp um 100 manns á ritstjórninni.

Þetta er í fyrsta sinn sem til hópuppsagnar kemur á blaðinu í 156 ára sögu þess. Ástæðan fyrir uppsögnunum eru ört minnkandi auglýsingatekjur blaðsins sem aftur endurspeglar ástandið í bandarísku efnahagslífi.

Samkvæmt frásögn í New York Post hafa 50 blaðamenn innan verkalýðsfélags þeirra ákveðið að þiggja starfslokasamning frá stjórn blaðsins. Um 20 aðrir starfsmenn ritstjórnar sem ekki tilheyra verkalýðsfélagi hafi ákveðið að gera slíkt hið sama.

Stjórn blaðsins segir að skera þurfi niður um 30 störf til viðbótar og hvetur starfsfólk á ritstjórninni að taka við sama samningi og þeir 70 fyrrgreindu. Samningurinn felur m.a. í sér að viðkomandi fær greidd 3ja vikna laun fyrir hvert ár sem hann hefur starfað á blaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×