Boðað hefur verið til blaðamannafundar í dag þar sem undirritaðir verða samningar félagsins Verne Holdings við Landsvirkjun, Farice og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar í tengslum við rekstur netþjónabús hér á landi.
Í tilkynningu kemur fram að Verne Holdings, Novator og bandaríski fjárfestingarsjóðurinn General Catalyst boði til fundarins en félögin ætla jafnframt að kynna áætlanir sínar uppbyggingu og rekstur netþjónabús.
Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í nóvember að netþjónabúið yrði starfrækt á Keflavíkurflugvelli og það yrði eitt af tuttugu stærstu í heimi. Verne Holding er í eigu Novators, félags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska fjárfestingafélagsins General Catalyst.
Í fréttinni kom einnig fram að forsenda þess að hægt sé að reisa netþjónabúið væri að nýr sæstrengur yrði lagður frá landinu.