Viðskipti erlent

Stýrivextir í Bandaríkjunum lækka um 0,25 prósentustig

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna.
Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna. MYND/AP

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig í dag sem táknar að vextirnir eru nú 2%. Hafa þeir ekki verið lægri síðan í desember 2004.

Er þetta sjöunda stýrivaxtalækkun seðlabankans í röð lækkana sem nær aftur til septembermánaðar en þá voru vextirnir 5,25%.

George Bush Bandaríkjaforseti lét þau ummæli falla í gær að efnahagsástandið í landinu væri tvísýnt og styðja niðurstöður skýrslu, sem út kom í dag, þau orð en þar kemur fram að verg landsframleiðsla Bandaríkjanna jókst ekki um nema 0,6% á fyrsta fjórðungi ársins.

Þótt það sé meira en hagfræðingar höfðu spáð sýnir hlutfallið að framleiðsluaðilar hafa sankað að sér vörubirgðum sem talið er að geti dregið úr landsframleiðslu á næstu mánuðum.

Reuters greindi frá þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×