Viðskipti erlent

Hagnaður McDonalds eykst á fyrsta fjórðungi

McDonalds skilaði góðum hagnaði á fyrsta ársfjórðungi.
McDonalds skilaði góðum hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Mynd/ Reuters.

Hagnaður McDonalds keðjunnar jókst um 24% á fyrsta fjórðungi þessa árs og má helst rekja ástæðuna til veiks Bandaríkjadals og mikillar sölu á mörkuðum utan Bandaríkjanna.

Á tímabilinu janúar - mars hagnaðist keðjan um 71 milljarð íslenskra króna, sem samsvarar 946 milljónum Bandaríkjadala. Á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn rúmir 57 milljarðar íslenskra króna, eða 762 milljónir Bandaríkjadala.

Talsmenn McDonalds segja að tekjur fyrirtækisins hafi aukist um 6%, eða í 420 milljarða íslenskra króna. "Við skiluðum góðum fyrsta ársfjórðungi, vegna góðrar sölu og aukningu gesta alls staðar í heiminum," sagði Jim Skinner, aðalforstjóri McDonalds, í yfirlýsingu.

Tekjur jukust um 23% í Evrópu, en tekjur í Asíu, Mið - Austurlöndum og Afríku jukust um 24%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×