Handbolti

Ciudad Real lagði Montpellier

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson í leik með Ciudad Real.
Ólafur Stefánsson í leik með Ciudad Real. Mynd/Vilhelm

Ólafur Stefánsson skoraði sex mörk fyrir Ciudad Real sem vann Montpellier í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi, 27-24.

Staðan í hálfleik var 12-9 fyrir Ciudad en liðið hefur unnið báða leiki sína til þessa í 16-liða úrslitunum en liðunum er skipt upp í fjóra riðla. Eitt lið kemst upp úr hverjum riðli og er Ciudad á toppi síns riðils.

Á miðvikudaginn kemur mætast svo Gummersbach og Ciudad Real en þar mætir Ólafur sínum gamla lærimeistara, Alfreði Gíslasyni, og landsliðsfélögum sínum Guðjóni Vali Sigurðssyni, Róberti Gunnarssyni og Sverre Jakobssyni.

Kiel er eina liðið auk Ciudad sem er taplaust eftir fyrstu tvo leikina. Liðið vann í gær Medwedi Tschechow, 28-25.

Annað spænskt Íslendingalið var í eldlínunni um helgina en Granollers datt út úr Evrópukeppni félagsliða þrátt fyrir tveggja marka sigur á Metalurg Skopje á heimavelli, 27-25. Árni Þór Sigtryggsson komst ekki á blað í leiknum.

Metalurg vann fyrri leik liðanna með þriggja marka mun og þar með eins marks sigur samtals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×