Handbolti

Gummersbach vann Göppingen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur skoraði níu mörk fyrir Gummersbach í dag.
Guðjón Valur skoraði níu mörk fyrir Gummersbach í dag. Nordic Photos / Bongarts

Fjórum leikjum er lokið í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta þar sem topplið Flensburg og Kiel unnu örugga sigra.

Gummersbach skaust upp í sjötta sæti deildarinnar með sigri á Göppingen, 34-29. Guðjón Valur Sigurðsson skoraði níu mörk fyrir Gummersbach og Róbert Gunnarsson eitt. Sverre Andreas Jakobsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir þrjár brottvísanir í leiknum.

Jaliesky Garcia skoraði þrjú mörk fyrir Göppingen sem er í níunda sæti deildarinnar.

Lemgo féll niður í sjöunda sæti deildarinnar þar sem liðið tapaði fyrir Kiel á útivelli, 32-27. Logi Geirsson var markahæstur leikmanna Lemgo með sex mörk.

Kiel náði þó ekki að hrifsa toppsætið af Flensburg sem vann stórsigur á Melsungen, 43-25. Alexander Petersson skoraði fimm mörk fyrir Flensburg og Einar Hólmgeirsson tvö.

Þá vann liðið í þriðja sæti, Hamburg, öruggan sigur á Lübbecke, 38-25. Hvorki Birkir Ívar Guðmundsson né Þórir Ólafsson voru með Lübbecke í leiknum. Birkir Ívar er á leið frá félaginu og Þórir á við meiðsli að stríða.

Hamburg er í þriðja sæti með 49 stig, tveimur á eftir Kiel og þremur á eftir Flensburg sem er í efsta sæti með 52 stig. Kiel á þó leik til góða.

Lübbecke er í þriðja neðsta sæti deildarinnar með fjórtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×