Handbolti

Vörn og markvarsla eru lykilatriði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Aron Kristjánsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
„Ég býst við mjög erfiðum leik og Frakkarnir hljóta að vera með sært stolt eftir leikinn í Magdeburg í fyrra," sagði Aron Kristjánsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta, um leikinn gegn Frökkum síðar í dag.

Þessi lið mættust á HM í Þýskalandi í fyrra og voru þá Íslendingar með bakið upp við vegg. Þeir þurftu að vinna eftir óvænt tap fyrir Úkraínu og gerðu það með stæl.

Frakkar eru þó ríkjandi Evrópumeistarar og án nokkurs vafa með eitt sterkasta lið heims í dag.

„Þeir hljóta að mæta mjög grimmir til leiks í dag," sagði Aron. „Þó svo að þeir eru öruggir áfram í milliriðilinn með tvö stig hljóta þeir vilja fara áfram með fjögur stig."

Aron segir þó að verkefnið sé alls ekki vonlaust fyrir íslenska liðið.

„Strákarnir sýndu í Þýskalandi að við getum unnið Frakkana. Við erum með þannig lið að það getur unnið allar þjóðir heims en að sama skapi tapað fyrir öllum þeim þjóðum sem spila á EM."

„Við erum ekki enn í þeim klassa að geta bókað sigur gegn þjóðum eins og Tékklandi - eins og Króatía og Frakkland geta vissulega gert."

„Það sem við þurfum að gera er að halda áfram að spila sterkan varnarleik og markvörslu. Það er algert lykilatriði ef við ætlum að eiga séns gegn liði eins og Frakklandi."

„Hinum megin á vellinum verðum við svo að fá skytturnar okkar í gang. Við vinnum ekki þennan leik ef skytturnar halda áfram á þeirri braut sem þeir voru á í fyrstu tveimur leikjunum. Þeir verða að ná sér á strik og vonandi gerist það í þessum leik."

„Fyrir mót var talað um að sóknarleikurinn væri sterkasta hlið íslenska liðsins og allir bjuggust við að liðið myndi skora mikið af mörkum í öllum sínum leikjum. Að sama skapi var búist við því að við myndum vera í erfiðleikum með varnarleikinn og markvörsluna en annað hefur komið upp á daginn. Það er vonandi að sóknarleikurinn detti inn í dag en til þess þurfa menn eins og Einar, Logi og Snorri að bæta sinn leik."

Aron segir þó að íslensku hraðaupphlaupin séu þó með þeim bestu í heiminum.

„Gegn Slóvökum sýndum við að hraðaupphlaupin eru okkar sterkasta vopn og að þar erum við í fremstu röð."

Ekki er búist við því að Ólafur Stefánsson verði með í dag en hann var ekki með gegn Slóvökum vegna meiðsla.

„Fjarvera Ólafs gerir hlutverkið vissulega erfiðara. Ólafur er með betri leikmönnum heims. En á hinn bóginn þýðir ekki að halla sér endalaust upp að honum. Aðrir leikmenn verða að þjappa sér saman og sýna að þeir geti verið án hans."

„Þar að auki eigum við tvo mjög ólíka leikmenn í hans stöðu. Annars vegar Einar Hólmgeirsson sem er mikill skotmaður og svo Ásgeir Örn Hallgrímsson sem er duglegri að leita semherja sína uppi. En báðir þurfa þeir að horfa meira á markið. Það er eins og að þeir hafi verið ragir við að láta skotið flakka."

Aron segir að auk markvarðanna sé Sigfús Sigurðsson besti maður íslenska liðsins til þessa.

„Þeir hafa staðið sig gríðarlega vel. Sigfús er búinn að stýra varnarleiknum eins og herforingi og er líka búinn að vera klókari en áður. Hann hefur ekki fengið á sig margar brottvísanir sem er mjög jákvætt. Hann og Ásgeir Örn ná mjög vel saman í 5-1 vörninni þar sem Guðjón Valur er fremstur. Guðjón Valur er líklega með betri leikmönnum í heiminum í þeirri stöðu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×