Handbolti

Steinar Ege: Noregur fer ekki á verðlaunapall

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steinar Ege, markvörður norska landsliðsins.
Steinar Ege, markvörður norska landsliðsins. Nordic Photos / Bongarts

Steinar Ege, hinn leikreyndi markvörður norska landsliðsins í handbolta, telur það ekki líklegt að Norðmenn lendi í verðlaunasæti á EM sem hefst þar í landi í næstu viku.

Norðmenn binda nú miklar vonir við sína menn eftir að liðið vann æfingamót í Danmörku um helgina. Á því móti lék einnig íslenska landsliðið sem og það pólska.

Noregur tapaði aðeins einu stigi á mótinu, í jafnteflisleik gegn Íslandi. Það var jafnframt eina íslenska stigið á mótinu.

„Það eru örugglega miklar væntingar gerðar til okkar eftir það sem við sýndum í Danmörku um helgina. En við erum ekki líklegir til að ná verðlaunasæti," sagði Ege.

Noregur mætir Danmörku í fyrsta leik og þó svo að Ege og félagar hafi unnið Dani á þeirra heimavelli um helgina varar hann við of mikilli bjartsýni.

„Danir hafa sagt að þeir sætti sig aðeins við sjálft gullið. Það er ekkert sem segir að við eigum að vinna þá. Leikirnir í Danmörku voru bara æfingaleikir og verðum við að taka þeim sem slíkum. Það er enn langt í EM og mikil vinna framundan."

Ege segir að bæta þurfi sóknarleikinn og hraðaupphlaupin hjá norska liðinu auk þess sem líkamlegt ástand leikmanna mætti vera betra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×