Viðskipti innlent

Fengu sér ís í tilefni af kaupum Íslendinga

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Nóg að gera við ísafgreiðsluna Starfsmenn Stork Food Systems í Boxmeer í Hollandi héldu upp á nýtt eignarhald fyrirtækisins með því að gæða sér á ís.
Nóg að gera við ísafgreiðsluna Starfsmenn Stork Food Systems í Boxmeer í Hollandi héldu upp á nýtt eignarhald fyrirtækisins með því að gæða sér á ís. Mynd/SFS
Haldið var upp á nýtt eignarhald matvælavinnsluvélaframleiðandans Stork Food Systems með allsérstökum hætti á dögunum. Fyrirtækið leigði ísbíl sérstaklega í tilefni af því að Íslendingar hefðu fest á því kaup og starfsmenn þess afgreiddu daglangt ís til kollega sinna.

Aðalstöðvar Stork Food Systems eru í Boxmeer í Hollandi, en kaup Marel Food Systems á fyrirtækinu tóku formlega gildi hinn 8. þessa mánaðar.

Tilkynnt var um kaupsamninginn 28. nóvember í fyrra en hann var háður þeim skilyrðum að fyrirhugað yfirtökutilboð London Acquisition N.V. um að kaupa alla hluti í Stork N.V. væri skilyrðislaust, að kaupin fengju jákvæða umsögn starfsmannaráðs Stork (Stork Works Council) og einnig samþykki evrópskra samkeppnisyfirvalda.

17. janúar síðastliðinn var því lýst yfir að yfir­tökutilboð London Acqusition N.V. um að kaupa alla hluti í Stork N.V. væri án skilyrða. Þá hlutu kaupin jákvæða umsögn starfsmannafélagsins og með samþykki evrópskra samkeppnisyfirvalda 21. apríl síðastliðinn var öllum skilyrðum kaupsamningsins fullnægt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×