Handbolti

Upp með húmorinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Sveinsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Sigurður Sveinsson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

„Leikmenn þurfa að rífa upp húmorinn og hafa gaman af þessu. Það er gaman að skora mörk," sagði Sigurður Sveinsson, einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Ísland mætir í kvöld liði Ungverjalands á EM í handbolta en í gær töpuðu Íslendingar fyrir heimsmeisturum Þjóðverja, 35-27.

„Leikurinn leggst nú ekkert sérstaklega vel í mig, miðað við hvernig Ungverjar hafa verið að spila til þessa. En ég held að strákarnir ætli sér að bjarga andlitinu í þessum tveimur leikjum sem eftir eru og þeir ættu nú að vera lausir við allt stress."

Mönnum var tíðrætt í gær að nú væri kominn tími til að íslenska landsliðið mundi spila vel allar sextíu mínúturnar í leiknum.

„Ég myndi byrja á 30 mínútum," sagði Sigurður og hló. „En það er alveg ljóst að þeir þurfa að mæta 100 prósent klárir í þennan leik því Ungverjar eru enn að keppast um sæti í undanúrslitunum."

„Þar að auki getum við bara ekki farið að tapa enn einum leiknum með 5-10 marka mun. Þetta eru of stór töp. Munurinn á liðunum er bara ekki svo mikill, sama hvað fólk segir."

„Það sorglega við þetta allt saman er að maður er sjálfur að farinn að finna til með þeim. Ég þekki þessa tilfinningu sjálfur."

Sigurður segir að af Íslendingar eigi frekar möguleika á að vinna Ungverja heldur en Spán sem Ísland mætir á morgun.

„Við eigum tvö gjörólík lið eftir og það hefur alltaf hentað okkur betur að spila við Ungverja. Það er því um að gera að hafa gaman af þessu og vinna þessa tvo leiki. Þá ljúkum við keppninni með reisn og höfum einhvern tíma til að endurskipuleggja okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×