Handbolti

Ólafur: Mótið er búið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson horfir á eftir boltanum í leiknum í gær.
Ólafur Stefánsson horfir á eftir boltanum í leiknum í gær. Mynd/Pjetur

Ólafur Stefánsson segir í samtali við TV2 í Danmörku að íslenska liðið hafi spilað hræðilega á EM í handbolta í Noregi.

Ísland tapaði í gær fyrir Þjóðverjum og hafa til þessa tapað þremur af fjórum leikjum sínum á mótinu. 

„Vi har spilled skidt," er haft eftir Ólafi og ekki þörf á því að þýða það. „Mótið er búið. Við ætlum að spila síðustu tvo leikina og sjá hvort ekki sé hægt að byggja upp sjálfstraustið í liðinu á nýjan leik. Við vonumst eftir sæti í undankeppni Ólympíuleikanna en verðum að treysta á aðra til þess."

Þarna á Ólafur við að Íslendingar verða að treysta á að hvorki Svíþjóð né Noregur hampi Evrópumeistaratitlinum. Þá sé Ólympíudraumurinn úti.

Ólafur sagði að þeir hafi náð að spila vel í stundarfjórðung gegn Þjóðverjum og sýnt þá hvað í þeim býr.

„En þetta er líka eini stundarfjórðungurinn á öllu mótinu þar sem við höfum spilað vel og það er ekki í lagi."

Ólafur sagði svo í lokin að íslenska handboltalandsliðið sé óútreiknanlegt.

„Ísland er eins og konfektkassi - þú veist aldrei hvaða mola þú færð."


Tengdar fréttir

Svona komst Ísland á Ólympíuleikana

Eitt aðalmálið á EM í Noregi snerist um hvaða tvær þjóðir urðu síðastar til að tryggja sér sæti í undankeppni Ólympíuleikanna í Peking í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×