Viðskipti innlent

Einkunnirnar hrapa

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Forsvarsmenn stærsta banka landsins, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson hjá Kaupþingi, svara spurningum fréttamanna við Stjórnarráðið fyrr í vikunni.
Forsvarsmenn stærsta banka landsins, Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson hjá Kaupþingi, svara spurningum fréttamanna við Stjórnarráðið fyrr í vikunni. Fréttablaðið/Stefán
Alþjóðleg matsfyrirtæki hafa í vikunni ítrekað lækkað lánshæfiseinkunnir bæði ríkissjóðs og bankanna.

Fyrst eftir að tilkynnt var um aðkomu ríkisins að Glitni síðasta mánudagsmorgun og svo eftir aðgerðir í kjölfar nýrra laga sem heimiluðu inngrip Fjármálaeftirlits í rekstur fjármálafyrirtækja.

Í gær færði japanska matsfyrirtækið R&I Rating lánshæfiseinkunn ríkissjóðs fyrir erlendar skuldbindingar í BBB- úr A+, með möguleika á frekari lækkun. Ákvörðunin kom í kjölfar þess að ríkið hefur tekið yfir Kaupþing, Landsbankann og Glitni.

Deginum áður lækkuðu einkunnir ríkisins og Íbúðalánasjóðs hjá bæði Fitch og Moody‘s. Bæði fyrirtækin hafa einkunnirnar áfram í skoðun með mögulega lækkun í huga.

Einkunnir Glitnis og Landsbankans náðu einnig nýjum lægðum í gær þegar Fitch setti bankana í flokk gjaldþrota fyrirtækja, með einkunnina D, en hún var áður B hjá báðum. Kaupþing var jafnframt á aðfaranótt fimmtudags lækkað í einkunnina CCC hjá Fitch.

Sambærileg lækkun hefur einnig átt sér stað af hálfu Standard & Poor‘s og Moody‘s.

Þá lækkaði Fitch á þriðjudag lánshæfiseinkunnir Straums-Burðaráss eftir kaup Straums á erlendri fjárfestingarbanka­starfsemi Landsbankans. Langtímaeinkunn Straums fór í BB- úr BB+ og horfur sagðar í athugun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×