Viðskipti erlent

Samdráttur í Windows-sölu lækkar Microsoft um 4,6%

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft.
Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft. MYND/AP

Bréf hugbúnaðarrisans Microsoft féllu um 4,6% í morgun í kjölfar samdráttar í sölu Windows-hugbúnaðarins sem fyrirtækið er hvað þekktast fyrir.

Nam samdrátturinn 24% á fyrsta fjórðungi ársins auk þess sem velta fyrirtækisins frá hugbúnaðarsölu hefur minnkað nokkuð vegna aukinnar sölu PC-tölva til ýmissa þróunarlanda. Í þeim löndum er hugbúnaður ódýr auk þess sem svokallaðar sjóræningjaútgáfur hans, þ.e.a.s. ólögleg afrit, eru mun útbreiddari.

Lækkun Microsoft nemur 1,45 bandaríkjadölum síðan í gær og stóð hluturinn í 30,35% dölum við opnun í morgun. Talsmenn Microsoft láta þó engan bilbug á sér finna og segjast standa við tilboð sitt um að kaupa netveituna Yahoo fyrir 44,6 milljarða dala, jafnvirði um 3.287 milljarða króna.

Þessar fregnir koma þvert ofan í spár greiningaraðila um stóraukna sölu Windows-hugbúnaðarins í kjölfar 15% aukningar á sölu PC-tölva á síðasta ársfjórðungi en yfir 90% tölva heimsins nota Windows.

Bloomberg greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×