Viðskipti innlent

Flogið til móts við viðskiptaengla

Talið er að aldrei hafi fleiri gestir fylgst með þeim sprotafyrirtækjum sem kynntu starfsemi sína á fjárfestaþingi Seed Forum. Markaðurinn/GVA
Talið er að aldrei hafi fleiri gestir fylgst með þeim sprotafyrirtækjum sem kynntu starfsemi sína á fjárfestaþingi Seed Forum. Markaðurinn/GVA

„Það er nauðsynlegt að brúa bilið á milli Klaks, sem styður við nýsköpunar- og sprotafyrirtæki, og fagfjárfestingarsjóða. Fyrirtæki sem eru að komast af klakstigi þurfa að komast í hendurnar á góðu fólki sem er tilbúið til að veita þeim fjármagn og hjálpa til við reksturinn,“ segir dr. Eggert Claessen, en hann er í forsvari fyrir samtök viðskiptaengla, Iceland Angels, þeim fyrstu hér á landi.

Að sögn Eggerts hefur lengi verið unnið að stofnun samtakanna en það var kynnt til sögunnar í kjölfar fjárfestingaþingsins Seed Forum sem fram fór á föstudag.

Samtök sem þessi eru þekkt utan landsteinanna, sérstaklega í Bandaríkjunum og Skotlandi. Þau mynda fjársterkir einstaklingar, svokallaðir viðskiptaenglar, sem hafa áhuga á að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, sem eru mislangt á veg kominn í vöruþróun sinni. Fjárfestarnir setjast gjarnan í stjórn fyrirtækjanna sem þeir fjárfesta í.

Umgjörðin er að miklu leyti fengin frá LINC – viðskiptaenglaneti í Skotlandi – en David Grahame, framkvæmdastjóri þess, hélt kynningu á starfsemi þeirra á fjárfestaþingi Seed Forum á föstudag. Auk Grahames hélt Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tölu á þinginu um stuðning ríkisins við íslensk sprotafyrirtæki.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×