Viðskipti innlent

Metarður að utan

Arðgreiðslur þriggja erlendra félaga sem hafa íslensk fyrirtæki í hluthafahópnum er tæplega tvöfalt hærri en sem nemur arðgreiðslum allra íslensku félaganna sem mynda Úrvalsvísitöluna í Kauphöll Íslands.

Arðgreiðslur til hluthafa bresku lágvörukeðjunnar Iceland er sú hæsta sem nokkuð félag hefur fengið utan landsteinanna. Niðurstöður liggja ekki fyrir um afkomuna í fyrra en samkvæmt heimildum Markaðar­ins eru líkur á að um 300 milljónir punda falli hluthöfum hennar í skaut. Það jafngildir rúmum 46 milljörðum króna miðað við gengi evru í gær. Heildar­arðgreiðslur Iceland-keðjunnar síðastliðin þrjú ár nema 670 milljónum punda, eða rúmum 100 milljörðum króna.

Gangi allt eftir munu Baugur, Fons (sem hvorugt er skráð á markað), Kaupþing og Landsbankinn fá tæpa 37 milljarða króna en Malcolm Walker, forstjóri Iceland, og aðrir stjórnendur hennar rest.

Þetta verður jafnframt annað árið í röð sem arðgreiðsla frá versluninni slær Íslandsmet í krónum talið. Til samanburðar er næststærsta arðgreiðsla sögunnar greiðsla til Existu vegna hlutar í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo Group. Greiðslan, sem nam 13,7 milljörðum króna, féll félaginu í skaut á síðasta ári. Exista sat þá á rúmum fimm­tán prósenta hlut í Sampo, sem skráð er í kauphöllina í Helsinki í Finnlandi. Félagið hefur bætt við sig síðan þá og fer nú með tæpan fimmtungshlut í félaginu.

Væntar arðgreiðslur Existu vegna hlutarins í Sampo nú nema 138,6 milljónum evra fyrir síðasta ár. Það jafngildir rúmum 16,8 milljörðum króna miðað við gengi evru gagnvart krónu í gær.

Til viðbótar þessu tekur Exista um 600 milljónir króna vegna stöðu sinnar í norska fjármála- og tryggingafyrirtækinu Storebrand. Kaupþing og Exista fara saman með um 29 prósenta hlut í fyrirtækinu og fær Kaupþing, sem á fimmtung í félaginu, 1,3 milljarða króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×