Handbolti

Lemgo vann Lübbecke

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Ívar Guðmundsson varði sex skot í marki Lübbecke í gær.
Birkir Ívar Guðmundsson varði sex skot í marki Lübbecke í gær. Nordic Photos / AFP

Tveir leikir fóru fram í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í gærkvöldi. Lemgo lagði Lübbecke, 27-22, í Íslendingaslag.

Birkir Ívar Guðmundsson stóð í marki Lübbecke í fyrri hálfleik í leiknum og varði á þeim tíma sex skot.

Logi Geirsson var í leikmannahópi Lemgo en náði ekki að komast á blað. Hann er nú óðum að jafna sig eftir erfið meiðsli.

Þórir Ólafsson lék hins vegar ekki með Lübbecke þar sem hann er viðbeinsbrotinn.

Þá fór Hamburg illa að ráði sínu gegn Wetzlar á heimavelli. Hamburg var með sex marka forystu í hálfleik, 19-13, en missti leikinn niður í jafntefli á síðustu sjö mínútum leiksins. Staðan var þá 31-27 en Wetzlar skoraði næstu fjögur mörk leiksins og hélt jöfnu allt til loka, 33-33.

Þar með missti Hamburg af tækifærinu til að komast í efsta sæti deildarinnar en liðið er nú í öðru sæti með 25 stig, rétt eins og Flensburg og Nordhorn. Flensburg er með besta markahlutfallið og er því í efsta sæti.

Kiel er svo í fjórða sæti með 24 stig. Lemgo er í sjöunda með nítján stig og Lübbecke í því næstneðsta með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×