Handbolti

Gummersbach sigurvegari riðilsins eftir stórsigur á Val

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr fyrri leik Vals og Gummersbach í Meistaradeildinni.
Úr fyrri leik Vals og Gummersbach í Meistaradeildinni. Mynd/Eyþór

Gummersbach er nú öruggur sigurvegari F-riðils Meistaradeildar Evrópu eftir tólf marka sigur á Val í dag, 34-22. Leikurinn verður sýndur á Eurosport 2 í kvöld klukkan 20.00.

Gummersbach er nú komið með níu stig í riðlinum og getur ekkert lið náð því að stigum. Valur er með tvö stig í neðsta sæti.

Valsmenn skoruðu þó fyrsta markið í leiknum og komst svo í 3-1. Gummersbach svaraði með því að skora fjögur mörk í röð og sigla svo hægt og rólega fram úr Valsmönnum. Staðan í hálfleik var 16-10, Gummersbach í vil.

Valsmenn skoruðu fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik en Gummersbach þau fimm næstu. Þeir þýsku gáfu ekkert eftir og héldu uppteknum hætti allt til leiksloka.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur Valsmanna með sjö mörk og Hjalti Þór Pálmason skoraði fjögur. Róbert Gunnarsson skoraði sex mörk fyrir Gummersbach en Sverre Jakobsson komst ekki á blað.

Guðjón Valur Sigurðsson lék ekki með Gummersbach vegna meiðsla.

Síðar í dag mætast hin liðin í riðlinum, KC Veszprém frá Ungverjalandi og Celje Lasko frá Slóveníu. Sigri Ungverjarnir í leiknum, sem fer fram í Slóveníu, eru þeir komnir áfram í næstu umferð Meistaradeildarinnar ásamt Gummersbach.

Ef heimamenn standa hins vegar uppi sem sigurvegarar mun Celje Lasko þurfa að vinna Gummersbach í lokaumferðinni, svo lengi sem Veszprém tapi ekki fyrir Val í Vodafone-höllinni á fimmtudaginn kemur.

Mörk Valsmanna: Arnór Þór Gunnarsson 7, Hjalti Þór Pálmason 4, Ernir Hrafn Arnarson 3, Elvar Friðriksson 3, Baldvin Þorsteinsson 2, Ingvar Árnason 1, Sigfús Páll Sigfússon 1, Ægir Hrafn Jónsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×