Innlent

Aron Pálmi segir ólýsanlegt að vera kominn til landsins

Aron Pálmi Ágústsson sem setið hefur í fangelsi í Texas fylki í Bandaríkjunum í 10 ár kom til landsins í morgun ásamt móðurfjölskyldu sinni. Hann segir ólýsanlegt að vera loksins kominn til landsins í fyrsta sinn í rúman áratug og þungu fargi sé af sér létt.

Fyrir einni viku fékk Aron Pálmi Ágústsson frelsi eftir 7 ára fangelsisvist og þriggja ára stofufangelsi í Texas fylki frá fjórtán ára aldri. Undanfarna viku hefur hann dvalið á heimili foreldra sinna í Houston. Hann lenti á Keflavíkurflugvelli í morgunsárið ásamt þremur móðursystrum sínum og fjölskyldum þeirra sem fylgdu honum hingað. Aron Pálmi var þreyttur eftir langt ferðalag en sagðist ánægður með að vera loksins kominn til landsins. Hann segir ótrúlegt að langþráður draumur hans sé orðinn að veruleika.

Aron hyggst dvelja hjá móðursystur sinni fyrst um sinn þangað til hann finnur sér íbúð. Hann stefnir á meira háskólanám við Háskóla Íslands bæði í sálfræði og íslensku en hann hefur lagt stund á sálfræðinám í Texas rúm tvö ár sem RJF stuðnings- og baráttuhópur Arons Pálma hefur kostað. Félagar úr RJF hópnum tóku vel á móti honum á flugvellinum í morgun. Einar S. Einarsson formaður RJF hópsins segist fagna komu Arons Pálma og langri baráttu hópsins sé lokið.



Margt tekur við hjá Aroni Pálma næstu mánuði og hyggst RJF hópurinn sjá til þess að hann fái alla þá læknisþjónustu og sálfræðiaðstoð sem hann þurfi á að halda.

Níu tímum áður en Aron Pálmi og fjölskylda hans áttu að bóka sig í flug til Íslands á flugvellinum í Boston hafði dagsferð um borgina verið planlögð á vegum Icelandair. Ræðismaður Íslands bannaði þeim að yfirgefa flugstöðina og hótaði Aroni Pálma handtöku yfirgæfi hann stöðina. Ræðismaðurinn sagðist vera með fyrirmæli frá íslenska sendiráðinu í Washington. Skömmu seinna var ágreiningurinn leystur og þau komust út úr flugstöðinni. Albert Jónsson sendiherra í Washington vísar því alfarið á bug í samtali við fréttastofu að hafa gefið slík fyrirmæli og segist harma framkomu ræðismannsins.

Nánar verður rætt við Aron Pálma og fjölskyldu hans í kvöldfréttum Stöðvar tvö klukkan hálfsjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×