Baugur, stærsti hluthafinn í Mosaic Fashions, hefur staðfest að það eigi í viðræðum um yfirtöku á félaginu. Gangi yfirtakan eftir mun það stofna félagið Newco ásamt öðrum fjárfestum. Viðræður eru á byrjunarstigi en rætt er um tilboð upp á 17,5 krónur á hlut sem er um sjö prósentum yfir núverandi verði.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að ekkert liggi fyrir hvort formlegt tilboð verði lagt fram.
Gengi Mosaic Fashions stendur nú í 16,3 krónum á hlut í Kauphöll Íslands.
Viðskipti með bréf í tískuvörukeðjunni voru stöðvuð í Kauphöllinni í morgun.