Fastir pennar

Dalurinn minn

Framtíðarlandið hugsar langt og grænt en svörin eru kannski ekki alltaf jafn skýr. Samkvæmt herferð Framtíðarlandsins eru þeir sem ekki eru sammála málflutningi þess gráir. Við erum góð og græn eru skilaboðin, hinir eru daprir og gráir.

En eru meðlimir Framtíðarlandsins raunverulegir umhverfisverndarmenn eða ástunda þeir það sem kallast nimbyismi. Það er skammstöfun á hugtakinu not in my back yard - sem þýðir "ég vil ekki hafa svona nálægt mér, það verður að vera annars staðar". Svona eins og maður sem á hús vill ekki láta byggja annað hús nálægt sér. Á íslensku mætti kannski útleggja þetta sem "dalurinn minn" - ég vil hafa dalinn minn í friði.

Umhverfisvernd er hnattræn. Þetta er sífellt verið að segja okkur. Ef loftslagsbreytingar eru aðalvandamálið í heiminum - svo hættulegar að þær tefla jafnvel framtíð mannkynsins í hættu - er varla hægt að mæla á móti því að álver knúin með vatnsafli séu góð. Eða viljum við frekar að þau séu kynt með kolum annars staðar í veröldinni? Það getur varla verið málið.

Ef við notum sömu viðmið, um ógn gróðurhúsaáhrifa, hljótum við að segja að kjarnorka sé góð - það er engin útblástursmengun frá kjarnorkuverum. Frá upphafi notkunar kjarnorku hafa þau kostað sárafá mannslíf. En samt eru eilíf mótmæli gegn kjarnorku.

Ég er ekki viss um að Framtíðarlandið - eða Íslandshreyfingin - hafi haft svör við þessu. Það hefur verið sagt að þessi vatns og hitaorka okkar sé svo lítil á heimsmælikvarða að það breyti engu. En það heldur ekki alveg vatni. Með sama hætti getur næsti jeppakarl sagt að hann mengi nú svo lítið í ljósi þess hvað heimurinn er stór - að hann geti alveg eins haldið áfram að bruna um á jeppanum sínum.

Ég sagði áðan að Framtíðarlandið hugsaði langt fram í tímann. Það er gott. Hins vegar eru Íslendingar þjóð sem hugsar stutt fram í tímann. Sumir ekki lengra en fram að næstu útborgun. Hagkerfið hérna er yfirspennt. Vextirnir eru blöskranlegir. Lánin sem fólkið hefur tekið til að kaupa húsnæði hækka stöðugt. Það gengur ekkert á höfuðstólinn. Í svona ástandi má alþýða manna ekki við neinum skakkaföllum - þá er strax farið að selja ofan af fólki í stórum stíl.

Það eru stjórnmálamennirnir sem hafa komið okkur í þessa stöðu og bankarnir - og auðvitað við sjálf. Efnahagsstjórnin hér hefur ekki verið upp á marga fiska. En það er erfitt að vinda ofan af þessu án þess að margir verði fyrir tjóni. Það er þegar komin niðursveifla í hagkerfið. Það er bara reynt að fela hana fram yfir kosningar. Eftir þær gæti beðið okkar fall krónunnar, lækkun húsnæðisverðs, minnkandi kaupmáttur, jafnvel atvinnuleysi.

Hvert verður viðhorfið til stóriðju ef þetta gerist? Þá verður varla spurt um hina löngu framtíð með fyrirheitum um hátækni, ferðamenn sem koma til að sjá norðurljósin og eldfjallaþjóðgarð, heldur kannski bara næstu mánuði? Viljum við þá fá meiri stóriðju til að keyra hagkerfið upp aftur eins og hefur verið íslenska aðferðin síðasta áratug?

Er hugmyndin um dalinn minn einhvers konar lúxus sem menn geta leyft sér þegar allt er nokkurn veginn í blóma?

Framtíðarlandið hefur skýra stefnu. Það hafa Vinstri grænir líka og kannski Ómarsflokkurinn. Hinir flokkarnir hrekjast undan í flæmingi, þeir hafa barasta ekki náð að upphugsa vitsmunalegan valkost í orkumálum. Þeir hafa engar heillegar hugmyndir, og þannig líta þeir út fyrir að vera óheiðarlegir og ósamkvæmir sjálfum sér gagnvart góða fólkinu í Framtíðarlandinu.

Maður spyr hvort þetta breytist eitthvað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins eftir hálfan mánuð - eða hvort þar verði látið nægja að klappa upp formanninn?


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×