Fastir pennar

Félagaskelfar, bænarskrá til útlendra banka, áhangendur handboltaliðsins

Er það rétt sem Mogginn segir að væntanleg séu tvö framboð aldraðra og öryrkja? Og hóparnir þegar byrjaðir að kýta sín á milli. Liðsmaður úr öðrum hópnum segir að sér hafi verið neitað að sitja fund hjá hinum, en eftir forsvarsmanni annars framboðsins er haft: "Eftir því sem gremjan er meiri verða framboðin fleiri."

"The more the merrier!"

Mér sýnist að meðal þessa áhugafólks séu menn af því taginu sem hafa verið kallaðir "félagaskelfar". Menn sem þræða félagasamtök og ná einhvern veginn að vekja upp illdeilur hvar sem þeir fara. Kannski bara með nærveru sinni - svona eins og spákarlinn Prolix í bókinni Asterix og falsspámaðurinn.

En það er svosem ekkert einsdæmi að svona framboð líti dagsins ljós. Um daginn var ég að lesa mér til um nýafstaðnar þingkosningar í Serbíu og þar var meðal annars framboð lífeyrisþega.

--- --- ---

Kristján Jónsson á Morgunblaðinu er einhver gleggsti blaðamaður landsins - frumlegur í hugsun og athugull. Það hefur verið unun að lesa Viðhorfspistla hans þá sjaldan að hann skrifar. Þess vegna fagnar maður því að Kristján sé byrjaður að blogga. Samt er eiginlega með herkjum að maður rati núorðið inn á svona góðar síður - Hrafn Jökulsson upplýsir nefnilega að 5000 bloggsíður séu virkar þessa dagana.

En Kristján byrjar vel. Hann skrifar grein undir yfirskriftinni Sendum erlendum bönkum bænarskrá. Upphaf hennar er svona:

"Við sem skuldum húsnæðislán erum búin að uppgötva að við erum mjólkurkýr íbúðarlánasjóðs og banka sem græða feitt á því að við eigum ekki í önnur hús að venda. Í gamla daga sendu Íslendingar kónginum stundum bænarskrá þegar þeim ofbauð skattpíning og önnur valdníðsla. Getum við ekki beðið útlendinga um hjálp í neyð okkar núna? Þeir þurfa ekki einu sinni að vera neitt sérstaklega blíðir í lund, nóg að þeir átti sig á góðu viðskiptatækifæri og hafi hemil á gróðafíkninni."

Svona í framhaldi af þessu má benda á þessa frétt úr Ríkisútvarpinu þar sem segir að dráttarvextir hafi hækkað úr 17 prósentum í 25 prósent á þremur árum. Þetta kom fram í svari Jóns Sigurðssonar við fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttir. Jóhanna bregst svosem ekki aðdáendum sínum. En það er vandamál hversu Samfylkingin er hrædd við að taka stórauðvaldið til bæna.

--- --- ---

Það er svosem allt í lagi að sýna íslenska áhorfendur á pöllunum á handboltamótinu í Þýskalandi, þótt þeir keppi ekki við brasilískar stúlkur sem fylgja fótboltalandsliði þeirrar þjóðar. Maður verður samt ekki fyrir neinni "skönhedsåbenbaring". En best er að forðast að sýna þá sem eru mjög fullir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×