Handbolti

Ivano Balic í nærmynd

Ivano Balic hefur verið einn allra besti handboltamaður heimsins undanfarin ár
Ivano Balic hefur verið einn allra besti handboltamaður heimsins undanfarin ár NordicPhotos/GettyImages
Ivano Balic, sem nú er 27 ára og á hátindi ferils síns sló fyrst í gegn í lokakeppni HM í Portúgal 2003, ekki síst í úrslitaleiknum þar sem hann átti stórleik gegn langt um stærri og sterkari Þjóðverjum. Frábær tækni og framúrskarandi leikskilningur eru það sem gera Balic að einum fremsta handboltamanni í heimi, hann sannar að þeir kostir eru ekki síður mikilvægir en stærð og styrkur.

Með góðum rökum má halda því fram að Balic sé sá besti í sinni stöðu í heiminum í dag. Hann tekur sárasjaldan rangar ákvarðanir og dreifir afar vel spilinu á milli þess að spila upp á skyttur, skapa pláss á línunni og stimpla út á hornamennina, hann lætur alla samherja sína blómstra. Leikur hans ber þess einnig skýr merki að hann lék körfubolta sem barn og unglingur og fór tiltölulega seint að spila handbolta.

Þrátt fyrir nokkur arðvænleg tilboð frá stærstu félagsliðum Evrópu ákvað Balic að leika fyrir Metkovic Jambo í heimalandi sínu allt til ársins 2004 en þá skrifaði hann undir verðmætan samning við spænsku risana í Portland San Antonio. Það tók Balic nokkurn tíma að aðlagast leiknum á Spáni og eins þurfti hann að aðlagast spænskum lífstíl en á síðasta tímabili fór hann að blómstra og sanna verðgildi sitt fyrir Spánverjunum. Miklu skipti þegar æskuvinur hans, Davor Dominikovic hóf að leika með honum á Spáni.

Þrátt fyrir yfirlýst áhugaleysi á varnarleik og þrátt fyrir að hafa stundum brugðist þegar Króatar hafa lent í mótlæti er Ivano Balic sá eini í sögu handboltans sem hefur verið valinn mikilvægasti leikmaður fimm stórmóta í röð: HM í Portúgal 2003, EM 2004 í Slóveníu, Ólympíleikarnir 2004 í Aþenu, HM 2005 í Túnis og EM 2006 í Sviss.

Staða: Leikstjórnandi

Fæddur: 1. apríl 1979 í Split í Króatíu

Félagslið: Portland San Antonio á Spáni



Fleiri fréttir

Sjá meira


×