Veffyrirtækið Yahoo hefur ákveðið að hætta með Yahoo Photos, sem var fyrsta myndageymsla Yahoo á netinu. Í stað þess mælast forráðamenn fyrirtækisins til þess að fólk noti heldur síðuna Flickr, sem er í eigu Yahoo.
Í júní verður tugum milljóna notenda, sem skráð hafa myndir á Yahoo Photos, tilkynnt um þær leiðir sem þeir geta gripið til, til að færa myndir yfir í Flickr eða aðrar myndageymslur á netinu. Þetta geta verið geymslur sem eru í beinni samkeppni við Yahoo líkt og PhotoBucket, MySpace, Kodak Gallery, Shutterfly Inc. eða Snapfish.
PhotoBucket hefur stækkað gríðarlega að undanförnu og er það talið ástæða þess að Yahoo ræðst í þessar breytingar nú, segir á fréttavef Reuters.