Viðskipti innlent

Lífsstíll fremur en áhugamál

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, er mikill hestamaður. Hér nær hann tengingu við nýfætt folald í sveitinni í sumar.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, er mikill hestamaður. Hér nær hann tengingu við nýfætt folald í sveitinni í sumar. Mynd/Ásgeir Margeirsson

Í hátt í tuttugu ár hefur Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, stundað hestamennsku af miklu kappi. Hann kynntist henni sem unglingur í sveit og keypti sér sinn fyrsta hest þegar hann var ekki nema sextán ára. „Hestamennskan var mér alltaf mjög nærri, þrátt fyrir að mitt fólk vissi ekki hvað sneri fram og hvað aftur á hestum. Hún togaði hins vegar alltaf í mig, allt frá þessum tíma."

Eftir að Ásgeir flutti aftur heim að loknu verkfræðinámi í Svíþjóð hóf hann að stunda hestamennsku ásamt tengda­föður sínum. Síðan hefur áhugamálið hlaðið utan á sig hjá Ásgeiri, eigin­konu hans og tveimur af þremur sonum þeirra. „Fyrir okkur er þetta ekki lengur áhugamál heldur lífsstíll, enda fer megnið af okkar frítíma í þetta."

Í það heila á fjölskyldan hátt á annan tug hesta. Þau eru með hesthús í bænum og aðstöðu austur í sveit sem þau nota mikið á sumrin. Á haustin, þegar hestarnir eru í haga, nota Ásgeir og synir hans tímann í tamningar. Þeir eru því fáir mánuðirnir á ári sem hestamennskan tekur ekki tíma fjölskyldunnar. Nú er tamningunum nýlokið hjá þeim feðgum. Segir Ásgeir ekki laust við að hann finni fyrir fráhvarfseinkennum. „Maður er fljótt farinn að hugsa um hvernig hestarnir hafi það og gefur sér tíma til að fara að heimsækja þá. Enda myndast mjög sterkar taugar á milli hests og manns. Hins vegar nota ég líka tímann á haustin til að sinna öðrum málum sem ef til vill hafa setið á hakanum."

Það er lykilatriði, að mati Ásgeirs, að hestamennskan sé sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar. „Þetta kostar bæði mikinn tíma og peninga. Hestamennskunni þarf að forgangsraða framarlega, jafnvel á kostnað annars sem maður myndi gera. Það getur verið mjög erfitt ef það er ekki samstaða um það hjá fjölskyldunni. Ég hefði ekki sökkt mér svona djúpt í hestamennskuna nema af því hún varð fjölskylduáhugamál hjá okkur."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×