Viðskipti innlent

Betware nemur land á Spáni

Stefán Hrafnkelsson er framkvæmdastjóri og stofnandi Betware sem veitir Spænska ríkislottóinu þjónustu samkvæmt nýjum samningi.
Stefán Hrafnkelsson er framkvæmdastjóri og stofnandi Betware sem veitir Spænska ríkislottóinu þjónustu samkvæmt nýjum samningi. MYND/GVA

Undirritaður hefur verið samningur íslenska hugbúnaðar- og þjónustufyrirtækisins Betware og Spænska ríkislottósins um að Betware þjónusti lottóið á sviði gagnvirkra leikja. Samningurinn er gerður við STL (Sistemas Técnicos de Loterías del Estado) sem er að fullu í eigu ríkislottósins.

„Spænska ríkislottóið vill þróa leikjaframboð sitt þannig að viðskiptavinir geti tekið þátt í leikjum á Internetinu, farsímum og gagnvirku sjónvarpi,“ segir í tilkynningu Betware. Þar kemur einnig fram að þeir leikir sem STL býður upp á nú þegar verði jafnframt fluttir yfir í kerfi Betware.

Haft er eftir Alfonso P. Fernandez hjá STL að meðal annars hafi verið horft til sveigjanleika lausnar Betware sem þýði að hægt sé á skömmum tíma að bæta við nýjum leikum.

„Samningurinn við STL skiptir miklu máli fyrir Betware þar sem um er að ræða eitt stærsta ríkislottó í heimi. Árið 2005 var Spænska ríkislottóið það stærsta í heimi með 11 milljarða dollara í sölutekjur sem er nálægt 13 prósentum af heildarsölu allra lottómiða í Evrópu. Segja má að með þessum samningi sé Betware komið á kortið sem verðugur keppinautur á þessum markaði,“ segir í tilkynningunni um samninginn, en í kjölfar hans er fyrirtækið sagt munu stækka um að minnsta kosti helming.

Betware var stofnað árið 1998 og er með höfuðstöðvar í Reykjavík. Að auki er fyrirtækið með þrjú útibú í Evrópu og Norður-Ameríku. Hjá Betware starfa ríflega 60 manns, en áætlanir gera ráð fyrir að starfsmenn verði um 90 fyrir árslok.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×